Ekki skýrt hvort Framsókn sé til vinstri eða hægri

Sanna Magdalena Mörtudóttir, oddviti Sósíalistaflokksins í Reykjavík.
Sanna Magdalena Mörtudóttir, oddviti Sósíalistaflokksins í Reykjavík. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sanna Magdalena Mörtudóttir, oddviti Sósíalistaflokksins í Reykjavík, segist mjög ánægð með árangur flokksins í nótt og segir hann ekki hafa komið sér á óvart eftir kannanir síðustu daga. Þá vilji sósíalistar sjá vinstri stjórn.

„Við vorum skýr með húsnæðismálin og jöfnuðinn og að við þyrftum að ná því gegn. Þannig að við finnum að það hafi náð árangri í þessari kosningabaráttu,“ segir Sanna.

Sósíalistaflokkurinn fékk 7,7% atkvæða í borgarstjórnarkosningunum og fór úr einum borgarfulltrúa í tvo.

Vinna ekki með Sjálfstæðisflokki og Viðreisn

Sanna segir sósíalista vilja vera í stjórn en að þau séu ekki tilbúin til að vinna með hverjum sem er. Mikilvægt sé að mynda stjórn utan um mannúðina og félagshyggjuna og leggja áherslu á það.

„Við höfum sagt að við getum ekki unnið með Sjálfstæðisflokknum og ég sé ekki að sósíalistar og Viðreisn séu með sömu hugmyndafræðilegar áherslur. Við sjáum að Viðreisn er að tala fyrir einkavæðingu, einkarekstri og útvistun og það fer ekki saman við það sem að sósíalistar eru að tala fyrir.“

Er Framsókn til vinstri eða hægri?

Spurð hvort að sósíalistar geti hugsað sé samstarf með Framsóknarflokknum svarar Sanna að ef til þess eigi að koma þurfi að koma skýrt fram hvort flokkurinn sé til vinstri eða hægri en að hennar mati hafi Framsókn ekki gefið það skýrt út.

„Það er að við séum með félagslega húsnæðisuppbyggingu, að við séum að tala skýrt gegn einkarekstri, að við séum að tala skýrt fyrir því að við ætlum að koma hér á efnahagslegu réttlæti í borginni, að kjör hinna verst settu verði leiðrétt og að við séum skýr að við séum þá vinstri stjórn. Mér finnst það mjög mikilvægt að það sé ekki verið að tala í báða enda. Að við séum bara skýr með það hvert við ætlum að stefna,“ segir Sanna.

Hún bætir við að henni finnist vel hægt að skoða hvort að Flokkur fólksins geti verið í meirihluta með sósíalistum enda flokkurinn talað fyrir málefnum gegn fátækt.

„En mér finnst það þurfa að vera mjög skýrt að við ætlum að fara í verkefnið að taka utan um þarfir þeirra verst settu og byggja okkar síðan upp. Mér finnst það þurfa að vera alveg mjög skýrt að enginn verður skilinn eftir hjá borginni,“ segir Sanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert