Draumastjórn Sönnu utan seilingar

Sanna Magdalena Mörtudóttir, oddviti Sósíalistaflokksins.
Sanna Magdalena Mörtudóttir, oddviti Sósíalistaflokksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Draumameirihluti Sönnu Magdalenu Mörtudóttur, oddvita Sósíalistaflokksins, saman stæði af Samfylkingunni, Sósíalistaflokknum, Framsóknarflokknum og Vinstri grænum. 

Það er þó vandkvæðum bundið þar sem Líf Magneudóttur, oddviti Vinstri grænna, er búin að lýsa því yfir að flokkurinn muni ekki taka þátt í meirihlutaviðræðum, og Dagur B. Eggertsson tilkynnti að fráfarandi meirihluti Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata, ætli sér að fylgjast að í meirihlutaviðræðum. 

Skilur ekkert í Samfylkingunni

Sanna segir í samtali við mbl.is að hún hafi beðið við símann en ekkert símtal fengið, hvorki frá Einari Þorsteinssyni, oddvita Framsóknarflokksins, né frá Degi B. Eggertssyni, oddvita Samfylkingarinnar. 

Hún kveðst ekki skilja hvers vegna Samfylkingin hjúfri sig upp að hægri-sinnuðum flokki Viðreisnar.

Ætti flokkurinn frekar að leita inn á við og í sínar vinstri-rætur, enda sé Samfylkingin í grunninn vinstri-flokkur, sem eigi margt sameiginlegt með Sósíalistaflokknum. 

Þarf að eiga sér stað stefnubreyting

Sanna telur þó ljóst að sá meirihluti sem Samfylkingin hefur leitt til þessa, hafi ekki staðið sig í stykkinu.

Það þurfi að eiga sér stað stefnubreyting sem feli í sér stórkostlegt átak í félagslegu húsnæði, endurskoðun á launum og láglaunastefnunni. 

„Taka þarf umræðu um hvað sé ásættanlegt launabil, lækka laun okkar borgarfulltrúa, og svo þarf að hlusta meira.“

Framlenging á föllnum meirihluta

Í yfirlýsingu sem Sanna og Traustu Breiðfjörð Magnússon, borgarfulltrúi Sósíalistaflokksins, sendu frá sér í kvöld, tala þau um að kominn sé tími á félagshyggjustjórn í Reykjavík. Mikilvægt sé að nýr meirihluti verði mótaður á nýjum grunni, ekki „enn ein framlengingin á föllnum meirihluta.“

Þau telja augljóst að uppbygging félagslegs húsnæðis yrði fyrsta verkefni nýs meirihluta. 

Kosningasigur Framsóknar opnar möguleika á meirihluta sem byggir á sama grunni og Reykjavíkurlistinn á sínum tíma, félagshyggjustjórn frá miðju til vinstri. Á fyrstu árum sínum vann R-listinn stórafrek í leikskólamálum. Nú vantar sambærilegt átak í húsnæðismálum. Það verður ekki gert nema af félagshyggjuflokkunum.

Sér fylgið færast frá hægri til vinstri

Þá segja þau að hægri-flokkarnir hafi tapað í kosningunum. 

Miðflokkurinn féll úr borgarstjórn, Sjálfstæðisflokkurinn tapaði tveimur mönnum og Viðreisn einum. Framsókn fékk alla þessa fjóra, svo segja má að þessir fulltrúar hafi færst frá hægri yfir á miðjuna.

Einnig benda þau á að vinstra-megin hafi Sósíalistar og Píratar unnið sinn hvorn manninn af Samfylkingunni. 

Þar færðist fylgið til vinstri og meiri róttækni. Eðlileg viðbrögð við þessu er að mynda meirihluta sem endurspeglar þessa sveiflu, frá miðju til vinstri.

Nýr meirihluti þurfi að hefja nýjan kafla

Þau minnast þess að með Reykjavíkurlistanum, á sínum tíma, hafi komið nýr andi til Reykjavíkur eftir „áratuga þrúgandi stjórn Sjálfstæðisflokksins.“

Sá meirihluti hafi haldið út þrjú kjörtímabil, en síðan hafi borgarbúar fellt alla meirihluta í borginni og borgarmálin einkennst af ósætti, minnkandi trausti og lélegri kosningaþátttöku. 

Ný meirihluti þurfi að enda þetta tímabil og hefja nýjan kafla í sögu borgarinnar.

Niðurstöður kosninganna kalli á meirihluta sem byggi á félagshyggju og mannúð, endurreisi traust meðal borgarbúa með því að byggja upp manneskjulegri borg þar sem allir fái að njóta sín. 

Útilokar ekki Flokk fólksins

Sanna kveðst tilbúin til þess að skoða meirihlutasamstarf með Framsóknarflokknum, Flokki fólksins og Pírötum. 

Flokkur fólksins hafi lagt áherslu á húsnæðisuppbyggingu og mannúðarmál, Píratar hafi talað fyrir vinstri-málefnum og Framsóknarflokkurinn sé óskrifað blað.

Þessi meirihluti er þó ómögulegur ef Píratar standa fastir á því að halda saman með Samfylkingunni og Viðreisn.

Ekki ljóst fyrir hvað Framsókn stendur

Aðspurð hvort hún telji ekki að stefnur Sósíalista- og Framsóknarflokksins, stangist á, segir hún það ekki liggja fyrir enda sé ekki skýrt hvað Framsóknarflokkurinn standi fyrir í raun og veru. 

Mikilvægt er, að sögn Sönnu, að meirihluti sem Sósíalistar tækju þátt í, einblíni á félagslega uppbyggingu og mannúð. Flokkurinn tali gegn hægri stefnu og því komi aðeins til greina að vinna frá miðju til vinstri. 

Viðreisn og Sjálfstæðisflokkurinn komi ekki til greina, enda tali þeir fyrir útvistun verkefna og sölu á innviðum, sem sé Sósíalistum þvert um geð. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert