mbl | sjónvarp

Óvíst hvernig valið verður á lista Miðflokksins

INNLENT  | 20. september | 16:48 
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, segir að enginn hörgull verði á öflugu fólki til að skipa lista Miðflokksins í næstu kosningum. Hann segir enn óvíst hvaða aðferðum verður beitt við að velja á listana.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, segir að enginn hörgull verði á öflugu fólki til að skipa lista Miðflokksins í næstu kosningum. Hann segir enn óvíst hvaða aðferðum verður beitt við að velja á listana.

 

Þetta kemur fram í samtali við Sigmund Davíð í Spursmálum þar sem farið er vítt og breitt yfir stjórnmálasviðið. Í dag er Miðflokkurinn aðeins með tvo þingmenn. Flokkurinn náði hins vegar þremur þingmönnum inn í síðustu kosningum en áður en blekið var þornað á kjörseðlum vék Birgir Þórarinsson úr flokknum og gekk til liðs við Sjálfstæðisflokkinn.

Í dag mælist Miðflokkurinn með 16% fylgi samkvæmt Þjóðarpúlsi Gallups og myndi fá 10 menn kjörna á þing miðað við það.

mbl.is

Frá því að viðtalið birtist hefur Anton Sveinn McKee, ólympíufari og margfaldur Íslandsmeistari í sundi gengið til liðs við Miðflokkinn en hann var áður flokksbundinn Sjálfstæðismaður. Er hann nú formaður nýstofnaðrar ungliðahreyfingar Miðflokksins.

Samtalið um þessi mál má sjá og heyra í spilaranum hér að ofan en það er einnig rakið í textanum sem hér fer á eftir.

Förunautar hringsins?

En þið eruð að mælast með 14-15% fylgi, jafnvel meira. Þið farið með himinskautum eins og ég nefndi hér í inngangi. En þið eruð tveir þingmenn Miðflokksins, þú og Bergþór Ólason. Kjósendur sem eru að greiða ykkur atkvæði sitt og eru í 15% stuðningsmannaliði eru að kjósa miklu fleiri þingmenn inn á þing. En fólk veit ekkert hvað er í pakkanum. Hvenær getur þú sem formaður Miðflokksins sýnt á spilin með það hvaða förunautar verða, förunautar hringsins, á næsta kjörtímabili.

„Já, riddarar hringborðsins, þeir voru 12. Hugsanlega verða þeir fleiri.“

mbl.is

Það væru tölur sem þú myndir vera ánægður með.

„Já, já. Það væri flott en ennþá skemmtilegra að hafa þá fleiri. En sjáum til með það enda sveiflast þessar kannanir og það. En varðandi skipun á lista þá gerist það bara þegar menn sjá til lands með það hvenær kosningar verða.“

Verða prófkjör hjá ykkur?

„Það á eftir að taka ákvörðun um aðferðir við val á lista. En það eru ólíkir möguleikar í boði hvað það varðar.“

Ólíkar aðferðir eftir kjördæmum

Hvað segja flokksreglur um það, ræður þú þessu bara?

„Nei. Eins og síðast þá var áhersla á það hjá okkur að hvert kjördæmi leysti þetta með sínum hætti, lýðræðislega. Þá var valið á lista með ólíkum aðferðum eftir kjördæmum og þetta er auðvitað alltaf erfiður tími þegar verið er að velja á lista.“

Þetta er persónulegt.

„Þetta getur verið mjög persónulegt. Og mér hefur alltaf fundist þetta leiðinlegast við pólitík. Röðun á lista og innbyrðis slagur milli manna sem er kannski nauðsynlegur í pólitík. En hvað verður ofan á skal ég ekki segja en í öllu falli get ég sagt þér það að þegar að því kemur að fá fólk á lista þá verður enginn skortur á frambjóðendum og ég held að það sé rétti tíminn þegar menn sjá til lands með hvenær kosningar verða, því þú getur ekki beðið fólk sem er í vinnu einhversstaðar að gefa sig upp og byrja í kosningaslag þegar menn vita ekki hvort kosningarnar verða eftir nokkrar vikur eða ár.“

Viðtalið við Sigmund Davíð má sjá og heyra í heild sinni hér að neðan:

 

 

Spursmál

Mest skoðað

Loading