Viðreisn bætir duglega við sig fylgi samkvæmt nýjustu könnun Prósents fyrir Morgunblaðið og mbl.is, en flokkurinn fengi 21,5% atkvæða ef kosið yrði til Alþingis nú. Ekki er marktækur munur á fylgi Viðreisnar og Samfylkingar, sem mældist með 22,4% fylgi.
Fylgisaukning annara flokka en Viðreisnar er mjög hófleg og innan vikmarka frá fyrri viku, svo ekki er óhætt að fullyrða neitt um fylgishreyfingar hjá þeim. Miðflokkur með rúmlega 15%, Sjálfstæðisflokkur áfram í 12% og Flokkur fólksins með rétt rúm 10%.
Píratar og Vinstri grænir úti
Á hinn bóginn taka Píratar dýfu eftir að hafa virst reisa sig talsvert í liðinni viku, en nú eru þeir aðeins með 3,4% fylgi, langt frá því sem þarf til þess að koma manni inn á þing. Fylgi Vinstri grænna hreyfist hins vegar ekki frekar en fyrri daginn og þarf að meira en tvöfaldast til þess að flokkurinn hangi inni á Alþingi.
Fylgi Sósíalista dalar talsvert frá fyrri viku, en er þó enn yfir 5%, svo flokkurinn á von um að koma mönnum á þing. Fylgi Framsóknar má heita hið sama og verið hefur margar undanfarnar vikur, réttu megin við fimm prósentin, en bara rétt svo.
Prósent gerði netkönnun meðal 2.600 mann úrtaks dagana 8. til 14. nóvember, en svarhlutfallið var 52%.
Óljós áhrif hremminga
Á ýmsu gekk í stjórnmálunum þá daga og má nefna fréttir af njósnaaðgerð gegn syni Jóns Gunnarssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, og umræðu um dólgsleg skrif Þórðar Snæs Júlíussonar, frambjóðanda Samfylkingar, undir dulnefni.
Ekki er að sjá að mál tengd Jóni Gunnarssyni hafi haft áhrif á fylgi Sjálfstæðisflokksins, þó auðvitað megi halda því fram að þau hafi hugsanlega haldið aftur af fylgisaukningu flokksins í sömu viku og hann kynnti kosingaáherslur sínar. Um slíkt er ógerningur að fullyrða nokkuð.
Á hinn bóginn reis umræðan um Þórð Snæ og skrif hans svo seint, að niðurstöður könnunarinnar ná ekki að endurspegla hugsanleg áhrif hennar svo nokkru nemi, varla nema síðasta daginn þegar svörun var orðin nokkuð dræm.
Nánar má lesa um niðurstöður könnunarinnar, fylgisþróun og fjölda þingsæta hvers flokks í Morgunblaðinu á morgun.
– – –
Fréttin var leiðrétt, en þar stóð upphaflega að Viðreisn hefði hlotið 22,5% fylgi, en þar átti að standa 21,5%.