Vísindamenn búa til „ofurmýs“ sem eru ónæmar fyrir krabbameini

Vísindamenn á Spáni hafa ræktað músarafbrigði sem hefur mjög sterka ónæmisvörn gegn krabbameini. Í músunum eru þrjú afrit, í stað tveggja, af genum sem hafa hemil á frumuskiptingu. Frá þessu greinir fréttavefur breska ríkisútvarpsins, BBC.

Vísindamennirnir, sem starfa við Krabbameinsrannsóknarmiðstöð Spánar í Madríd, greina frá niðurstöðum sínum í nýjasta hefti vísindaritsins Genes and Development.

Frumuvexti og skiptingu er stjórnað af genum sem kölluð eru æxlisbælar. Krabbamein myndast þegar frumur vaxa stjórnlaust og ráðast á og drepa heilbrigðan vef.

Spænsku vísindamennirnir, undir stjórn dr. Manuel Serrano, beittu DNA-tækni til að rækta mýs sem hafa aukaeintak af æxlisbælingargenum sem stjórna framleiðslu tveggja prótína er virðast geta stöðvar vöxt flestra krabbameinsfruma.

Ofurmýsnar reyndust hafa aukið ónæmi fyrir efnum sem valda krabbameini í venjulegum músum. Þegar ofurmýsnar voru látnar komast í snertingu við krabbameinsvaldana var æxlismyndun í músunum mun hægari en í öðrum músum.

Serrano telur aukna ónæmisvörn mega rekja til aukins magns af ofangreindum tveim prótínum sem fást úr aukageninu. Serrano segir að sig gruni að sumt fólk sé fætt með aukna ónæmisvörn gegn tilteknum krabbameinum. Vera kunni að hægt verði með lyfjum að veita fólki svipaða vörn og ofurmúsunum, en langt sé þangað til í ljós komi hvort slíkt sé mögulegt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka