Froskar bólgna upp og springa

Froskar í Hamborg í Norður-Þýskalandi drepast nú úr dularfullum sjúkdómi sem veldur því að þeir springa. Þúsundir froska hafa dáið á síðustu dögum í tjörn í Hamborg, þar sem þeir bólgna upp og springa að lokum, að því er fram kemur í frétt á BBC.

Innyfli froskanna dreifast yfir allt að metra radíus í kringum þá þegar þeir springa. Þykir þetta minna á vísindaskáldsögur og eru vísindamenn ráðþrota. Telja þeir að þessu valdi annað hvort óþekkt veira eða sveppasýking í tjörninni.

„Þú sérð dýrin skríða á jörðinni, bólgna upp og svo springa,“ segir Werner Smolnik, þýskur umhverfisverndarsinni. Hann segir froskana bólgna upp svo þeir verði allt að þrisvar og hálfu sinni stærri en eðlilegt er.

„Ég hef aldrei séð annað eins,“ segir Otto Horst, þýskur dýralæknir. Svæðið, sem nú er kallað „tjörn dauðans,“ hefur verið lokað almenningi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka