Sjúklingurinn missti neðrihluta andlitsins (nef, varir og höku) þegar hundur réðist á hana. Læknar fluttu húð, fitu og æðar af látnum líffæragjafa og græddu á konuna.
Læknar leggja áherslu á að konan komi ekki til með að líta út eins og líffæragjafinn en hún mun heldur ekki líta út eins og hún gerði fyrir árásina.
Tæknilega hefur þessi aðgerð verið möguleg í nokkur ár og hafa teymi í Bandaríkjunum, Bretlandi og Frakklandi stundað rannsóknir á þessu sviði.
Húð af andliti annars manns er betur til þess fallin til að græða á andlit en húð tekin annars staðar af líkama sjúklingsins, það er auðveldara með því móti að finna húð með svipaða áferð og lit.
Það sem hefur haldið aftur af skurðlæknum í heilum andlitságræðslunum til þessa eru siðfræðilegar hindranir og þau sálrænu áhrif sem slík aðgerð kann að hafa á sjúklinginn.
Hin 36 ára gamla kona fékk mikla sálfræðiráðgjöf fyrir aðgerðina sem stóð yfir í fimm klukkustundir og fór fram um síðustu helgi. Læknar skýrðu ekki frá aðgerðinni fyrr en nú því þeir vildu fullvissa sig um að allt hefði gengið að óskum.
Konan verður á lyfjum sem hjálpa líkamanum að samþykkja hin ágræddu líffæri eins og aðrir ágræðslusjúklingar. Enn er óvíst hvort aðgerðin hafi heppnast og ekki er vitað hvort andlitshreyfingar konunnar verði fullkomlega eðlilegar.