Breskir skurðlæknar hafa framkvæmt fyrstu hjartaígræðslu í Evrópu þar sem notast er við hjarta sem hætt er að slá. Gjafahjörtu eru venjulega tekin úr einstaklingum sem hafa verið úrskurðaðir heiladauðir, en í þessu tilfelli var hjartað tekið úr einstaklingi eftir að hjarta hans og lungu hættu að starfa.
Samkvæmt Papworth-sjúkrahúsinu í Cambridgeskíri gæti aðferðin orðið til þess að fjölga gjafahjörtum um a.m.k. 25%. Á síðustu 12 mánuðum hefur 171 hjartaígræðsla verið framkvæmd í Bretlandi, en eftirspurn eftir líffærum er mun meiri en framboð og sumir líffæraþegar þurfa að bíða í allt að þrjú ár eftir aðgerð. Margir deyja á biðlista, að því er fram kemur hjá BBC.
Aðferðin felst í því að „endurlífga“ hjartað fimm mínútum eftir andlát og dæla blóði og næringarefnum til helstu líffæra við líkamshita. Að sögn Stephens Larges, skurðlæknisins sem fór fyrir ígræðsluteyminu, var hjartað látið slá í 50 mínútur á meðan fylgst var með því, til að tryggja að það væri í góðu lagi.
Hjartanu var því næst komið fyrir í þar til gerðri vél, svokallaðri „heart-in-a-box machine“, og þar sló það í þrjár klukkustundir til viðbótar þar til aðgerðin var framkvæmd. Vélina má jafnframt nota til að viðhalda starfsemi lungna, lifrar og nýrna utan líkamans.
Venjulega skemmast hjörtu fljótt eftir að þau hætta að slá en með því að koma þeim aftur í gang og viðhalda blóðflæði um líffærið er hægt að draga úr skemmdum á hjartavöðvanum. Aðgerð af þessu tagi var framkvæmd í fyrsta sinn í Ástralíu í fyrra.
Samkvæmt TransMedics, fyrirtækinu sem framleiðir hjarta-í-boxi-vélina, kostar hún 150 þúsund pund, en rekstrarkostnaður við hverja ígræðslu er 25 þúsund pund. Papworth og Harefield eru einu sjúkrahúsin í Bretlandi sem nota vélina eins og sakir standa.
Það var Huseyin Ulucan, 60 ára Lundúnabúi, sem fékk umrætt hjarta. Hann fékk hjartaáfall 2008 og segist ákaflega glaður með hvernig aðgerðin heppnaðist. „Ég verð sterkari með hverjum deginum og gekk inn á sjúkrahúsið nú í morgun án nokkurra vandræða,“ sagði hann í samtali við BBC.