Stór hluti jökulsins á floti

Mun stærri hluti risavaxins jökuls á Suðurskautslandinu er á floti en ekki á föstu bergi eins og áður var talið. Vísindamenn eru áhyggjufullir þar sem jökullinn gæti nú bráðnað hraðar í  heitara loftslagi með alvarlegum afleiðingum á hækkun yfirborðs sjávar. 

Totten-jökulinn er á stærð við Frakkland og er einn sá stærsti á Suðurskautslandinu. Vísindamenn fylgjast náið með bráðnun hans þar sem hún gæti leyst úr læðingi mikið vatn sem aftur hefur áhrif á sjávaryfirborð.

Til verksins nota vísindamennirnir m.a. geisla til að sjá í gegnum ísinn. Þeir hafa nú komist að því að meira af jöklinum en áður er á floti í hafinu. „Á svæðum þar sem við héldum að jökullinn væri við hafsbotn höfum við uppgötvað sjó undir og því komist að því að jökulinn er í raun á floti,“ segir Paul Winberry, vísindamaður við Washington-háskóla. Hann hefur eytt sumrinu á Suðurskautslandinu. 

Hann segir þetta mikilvæga uppgötvun m.a. í ljósi þess að „kviður“ Totten-jökulsins hefur veðrast vegna þess að heitur, saltur sjór kemst að honum neðansjávar um mörg hundruð kílómetra leið. Þar með eru stærri hlutar jökulsins fljótandi ofan á vatni í stað þess að vera ofan á bergi. Það hraðar á bráðnun hans. 

Hann segir að sú staðreynd að jökullinn sé að stórum hluta á floti í hlýjum sjó geti skýrt hraða bráðnun hans upp á síðkastið. „Þetta getur einnig þýtt að Totten-jökullinn verður viðkvæmari fyrir loftslagsbreytingum í framtíðinni.“

Jöklar eru gríðarstórir ísmassar sem hreyfa sig hægt niður dali og fjöll undan eigin þunga. Það hafa þeir gert í hundruð ára og mótað þannig landslag jarðar. Í þeim er mesta ferskvatnsforðabúr jarðarinnar og bráðni þeir veldur það hækkun yfirborðs sjávar. 

Gríðarleg bráðnun hefur orðið á Suðurskautslandinu síðustu ár og að mati NASA, geimferðarstofnunar Bandaríkjanna, hefur hún valdið 0,35 millimetra hækkun vatnsyfirborðs að meðaltali á ári frá 2002.

Totten-jökulinn er svo stór að bráðni hann allur myndi það þýða 3 metra hækkun yfirborðs sjávar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert