Ráðgátan um „geimveruna“ leyst

Beinagrind litlu stúlkunnar sem fannst í Chile fyrir nokkrum árum.
Beinagrind litlu stúlkunnar sem fannst í Chile fyrir nokkrum árum.

Ráðgátan um hina dularfullu 15 sentímetra löngu beinagrind sem fannst í Síle er nú leyst. Beinagrindin hefur verið kölluð „geimveran“ vegna óvenjulegs höfuðlags hennar.

Vísindamenn hafa nú komist að því að um er að ræða líkamsleifar barns sem hafði alvarlega fæðingargalla. Þrátt fyrir að beinagrindin sé aðeins á stærð við fóstur var í fyrstu talið, vegna þéttni beinanna, að barnið hefði verið 6-8 ára gamalt er það lést. Annað átti eftir að koma í ljós.

DNA-rannsóknum var beitt til að komast að þessari niðurstöðu og hafa þær verið birtar í vísindatímaritinu Genome Reasearch.

Stærð beinagrindarinnar þótti ekki aðeins óvenjuleg heldur einnig sú staðreynd að í henni voru færri rifbein en í heilbrigðum einstaklingi og að höfuðið var mun ílengra.

Talið var jafnvel að beinagrindin væri af frummanni af áður óþekktri tegund. Þá voru einnig getgátur uppi um hvort beinagrindin væri hreinlega af geimveru, að því er segir í frétt BBC um málið.

Garry Noal, prófessor við Stanford-háskóla, segir að beinin hafi verið rannsökuð til hlítar og nú sé talið að erfðafræðileg stökkbreyting sé skýringin á óvenjulegum vexti barnsins sem reyndist vera lítil stúlka.

„Við teljum reyndar að stúlkan hafi fæðst andvana eða látist strax eftir að hún fæddist,“ segir hann í samtali við BBC. Hún hefði ekki getað lifað af án nútíma tækni.

Þó er ekki talið langt síðan stúlkan lést, líklega aðeins um fjörutíu ár eða svo. Nolan hóf að rannsaka beinagrindina eftir að hann fékk símtal árið 2012 frá kollega sínum sem sagðist mögulega hafa fundið „geimveru“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert