Hálf gráða hefði mikil áhrif á ísinn

AFP

Norður-Íshafið verður að mestu íslaust sum ár ef hitinn á jörðinni hækkar um tvær gráður á Celsíus miðað við meðalhitann við upphaf iðnvæðingarinnar, að sögn vísindamanna. Þeir segja að ef hitinn hækkar um 1,5°C minnki líkurnar á hafíslausum árum stórlega.

Markmiðið með Parísarsáttmála 197 ríkja frá desember 2015 er að hitastig jarðar hækki ekki meira en 2°C miðað við meðalhitann við upphaf iðnvæðingarinnar og að leitast verði við að halda hækkuninni undir 1,5°C.

Samkvæmt niðurstöðum rannsóknar, sem voru birtar í vísindatímaritinu Nature Climate Change yrði Norður-Íshafið íslaust að mestu fjórða hvert ár ef hitastigið hækkar um 2°C. Hækki hitinn um 1,5°C yrði hafið íslaust að meðaltali einu sinni á hverjum 40 árum.

„Ég bjóst ekki við því að hálf gráða myndi skipta miklu máli, en niðurstaðan varð sú,“ hefur fréttaveitan AFP eftir Alexöndru Jahn, höfundi greinar um rannsóknina og aðstoðarprófessor við Colorado-háskóla í Boulder. 

Útbreiðslan minnkaði um 40%

Hafísinn í Norður-Íshafi var 4,64 milljónir ferkílómetra í september síðastliðnum. Ísinn var þá talsvert meiri en árið 2012 þegar hann var minni en nokkru sinni fyrr, eða 3,39 milljónir ferkílómetra. Langtímaþróunin er þó óyggjandi því að lágmarksútbreiðsla hafíssins hefur minnkað um 40% að meðaltali á síðustu fjórum áratugum.

Vísindamenn spá því að Norður-Íshafið verði íslaust að mestu á sumrin um miðja öldina ef losun gróðurhúsalofttegunda verður ekki minnkuð verulega eins og gert er ráð fyrir í Parísarsáttmálanum. Samkvæmt skilgreiningu vísindamannanna er þá miðað við að hafísinn verði minna en milljón ferkílómetrar við norðurheimskautið.

Mjög líklegt er að hlýnun jarðar á síðari helmingi 20. aldar megi rekja til aukningar gróðurhúsalofttegunda í lofthjúpi jarðar, að því er fram kemur í grein á vef Veðurstofu Íslands. Þar segir að um 20-30% af þeim plöntu- og dýrategundum sem hafa verið rannsakaðar verði í aukinni útrýmingarhættu ef hlýnun fer yfir 1,5 til 2,5°C. Ef hlýnun fer yfir þessi mörk samfara aukningu koltvíoxíðs í andrúmslofti megi ætla að miklar breytingar verði á vistkerfum. Aukið magn koltvísýrings í andrúmsloftinu valdi því að sjórinn verði súrari en áhrif súrnunarinnar á lífríki hafsins séu enn ókunn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert