Ísland best í fjarskiptainnviðum

Houlin Zhao, aðalritari Alþjóðafjarskiptasambandsins, afhenti Sigurði Inga Jóhannssyni, samgöngu- og …
Houlin Zhao, aðalritari Alþjóðafjarskiptasambandsins, afhenti Sigurði Inga Jóhannssyni, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, viðurkenningu í dag. Ljósmynd/Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Ísland er í fyrsta sæti í þróun fjarskiptainnviða í samantekt Alþjóðafjarskiptasambandsins um stöðu þróunnar fjarskiptainnviða. Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, tók við viðurkenningu fyrir Íslands hönd á Grand hóteli í dag.

Houlin Zhao, aðalritari Alþjóðafjarskiptastofnunarinnar, afhenti viðurkenninguna og sagði Ísland fyrirmyndarríki í málaflokknum og sá árangur sem náðst hefur í þróun fjarskiptainnviða vera ástæða þess að Ísland hafi hlotið þessa viðurkenningu.

Sigurður Ingi sagði viðurkenninguna undirstrika stefnu íslenskra stjórnvalda um að efla aðgengi að öflugu fjarskiptakerfi, ásamt því að vera viðurkenning fyrir fjarskiptafyrirtækin sem hann sagði hafa náð árangri vegna virkrar samkeppni og miklum fjárfestingum. 

Zhao sagði „fleiri ríki eru stöðugt að átta sig á því að uppbygging fjarskiptainnviða snýr ekki bara að fjárfestingu einkaaðila, heldur líka þarf hið opinbera að koma að málum. Fjarskipti er eitthvað sem snýr að flestum sviðum samfélagsins og í þessu mikilvæga samspili hins opinbera og fyrirtækja er Ísland til fyrirmyndar.“

Samantekt Alþjóðafjarskiptasambandsins tekur til 11 þátt og er meðal annars litið til tölvueigna, aðgengi að háhraðaneti og menntun svo eitthvað sé nefnt.

Listann í heild sinni má finna hér

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert