Geimhíbýli þróuð í Stefánshelli

Margt mælir með því að fyrstu híbýli manna í geimnum verði neðanjarðar í hellum. Fyrirtækið 4th Planet logistics vinnur nú að því að þróa leiðir til að kortleggja og gera hella á tunglinu og Mars byggilega í Stefánshelli í Hallmundarhrauni.

Ég gerði mér ferð í hellinn í vikunni til að hitta þá Michael Chalmer Dunn sem er stjórnandi 4th Planet logistics og svissneska jarðfræðinginn Martin Gasser sem stýrir vettvangsrannsóknum fyrirtækisins hér á landi. Þeir hafa undanfarna viku dvalið á vettvangi og gert prófanir með drónum og fjarstýrðum könnunartækjum.

Gasser hefur verið búsettur hér á landi um árabil og er giftur íslenskri konu. Dunn kom fyrst  hingað til lands á áttunda áratugnum en hann hefur eytt stórum hluta starfsævi sinnar við störf á báðum pólunum og neðansjávar þar sem verkefnið hefur verið að skapa lífvænlegt umhverfi við erfiðar aðstæður.  

Af hverju hellar?

Dunn segir ýmislegt mæla með því að nota hella sem fyrstu híbýli fólks í geimnum. Með því að vera neðanjarðar fæst skjól fyrir geislun og smærri loftsteinum en ekki síst þá sé mikill kostur að þurfa ekki að ferðast með burðarvirki bygginga út í geim. Það muni um að spara hvert kíló af búnaði og farangri þegar kemur að ferðum til Mars og tunglsins. Sífellt er að bætast við þekkingu vísindamanna á hellakerfum á tunglinu og Mars og möguleikinn á að skapa vistarverur í uppblásnum tjöldum í hellum þykir að sama skapi sífellt vænlegri.  

Í myndskeiðinu er rætt við þá Dunn og Gasser en þeir munu líka verða á opnum fundi Stjörnufræðifélags Seltjarnarness á laugardag og Dunn verður einnig á Explorers festivalinu sem haldið verður á Húsavík 22. september.

Verkefnið er unnið í samstarfi við landeigendur og á næstu árum er markmiðið að fá erlendar stofnanir á borð við ESA og NASA til að koma að verkefninu ásamt öðrum erlendum fyrirtækjum í sama geira en Dunn segir að mikil samkeppni sé í því að þróa geimflaugar og búnað tengdan ferðalögum í geimnum. Hinsvegar hafi færri beint sjónum sínum að því hvernig eigi að bera sig að þegar á áfangastað er komið. 

Vefur 4th Planet logistics.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert