Fundu yfir 2.400 ára gamalt skipsflak

Skipsflakið er yfir 2.400 ára gamalt og er í góðu …
Skipsflakið er yfir 2.400 ára gamalt og er í góðu ásigkomulagi þar sem súrefnisskortur á hafsbotni hefur komið í veg fyrir niðurbrot flaksins. AFP

Fornleifafræðingar hafa fundið skipsflak á botni Svartahafs sem talið er að sé elsta ósnortna skipsflak sem fundist hefur í heiminum. Rannsókn fornleifafræðinganna hefur leitt í ljós að sennilega hefur flakið legið á hafsbotni í yfir 2.400 ár.

Flakið er 23 metra langt og er líklega frá tímum Forn-Grikkja. Við fundinn kom í ljós að mastur skipsins, stýri og þóftur eru í góðu ásigkomulagi, þökk sé súrefnisskorti svo djúpt í Svartahafinu, að sögn rannsakenda.

„Skip sem er ósnortið frá klassískri fornöld, á meira en tveggja kílómetra dýpi, það er eitthvað sem ég hefði aldrei trúað að væri mögulegt,“ segir prófessor Jon Adams í samtali við The Guardian. Adams fór fyrir rannsóknarleiðangrinum í Svartahafinu og segir hann að fundurinn muni breyta skilningi fornleifafræðinga og annarra vísindamanna á siglingum og skipum á fornöld.

Líklega er um flutningaskip að ræða líkt og af þeirri tegund sem aðeins sáust á forn-grískum leirmunum líkt og svokölluðum Sírenuvasa (e. Siren Vase) sem finna má á breska þjóðminjasafninu.

Ekki verður hreyft við skipsflakinu en lítill bútur var fjarlægður og fluttur á  rannsóknarstofu í háskólanum í Southampton til frekari rannsókna.

Skipið er eitt af 60 skipum sem fornleifafræðingarnir hafa fundið í skipulögðum leiðangri um höfin síðustu þrjú ár. Skipið sem fannst á botni Svarta hafs er án efa merkilegasti fundurinn hingað til.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert