Instagram breytir reglum vegna sjálfsvígs

Instagram mun herða reglur um birtingu efnis tengdu sjálfsskaða og …
Instagram mun herða reglur um birtingu efnis tengdu sjálfsskaða og sjálfsvígum. AFP

Stjórnendur Instagram ætla að auka eftirlit með myndbirtingum af sjálfsskaða vegna sjálfsvígs ungrar breskrar stúlku.

Tilkynnt var um þetta í kjölfar fundar forstjóra Instagram, sem er í eigu Facebook, Adam Mosseri, með heilbrigðisráðherra Bretlands, Matt Hancock, í gær.

Molly Russell framdi sjálfsvíg í herbergi sínu árið 2017. Hún var 14 ára gömul. Þegar farið var yfir sögu hennar á samfélagsmiðlum kom í ljós að hún fylgdi þar síðum þar sem fjallað var um þunglyndi og sjálfsvíg. Eftir dauða Russel var mikið fjallað um það í Bretlandi hvaða reglur giltu varðandi samfélagsmiðlanotkun barna. Bæði af hálfu foreldra og yfirvalda.

Faðir Mollyar, Ian Russell, segir það mjög hvetjandi að sjá samfélagsmiðil taka þetta skref í þeirri viðleitni að verja börn fyrir því að leita uppi slíkt efni á Instagram. „Það er tímabært fyrir aðra samfélagsmiðla að grípa til aðgerða,“ segir hann. Foreldrar Mollyar hafa aldrei sakað Instagram um að bera ábyrgð á dauða dóttur sinnar. En þau hafa ítrekað bent á hvaða áhrif það geti haft þegar svo auðvelt er að nálgast efni um sjálfsskaða á netinu. 

Mosseri segir að breytingarnar séu gerðar í kjölfar endurskoðunar sem sérfræðingar á sviði geðheilsu barna tóku þátt í að vinna. 

„Ég kom til starfa hjá fyrirtækinu fyrir meira en tíu árum síðan og við beindum sjónum okkar fyrst og fremst að því góða sem kæmi út úr því að tengja fólk saman,“ segir Mosseri í viðtali við Telegraph. „En ef ég á að vera hreinskilinn þá vorum við ekki nægjanlega meðvituð um hættuna sem fylgir því að tengja svo margt fólk saman. Þetta er eitthvað sem við höfum dregið lærdóm af undanfarin ár,“ bætir hann við.

Instagram hefur aldrei heimilað færslur þar sem hvatt er til sjálfsskaða eða sjálfsvíga eða þau fegruð. Nú verður gengið skrefinu lengra með því að fjarlægja efni sem ekki þarf að vera óhugnanlegt myndrænt séð heldur annað efni sem tengist sjálfsskaða á annan hátt. Eins verða myllumerki tengd sjálfsskaða bönnuð. Með þessu vonast stjórnendur Instagram til þess að gera þunglyndum unglingum erfiðara um vik við að finna efni sem gæti ýtt undir sjálfsvígshugsanir. 

Mosseri segir að Instagram muni hins vegar ekki fjarlægja allt efni tengt sjálfsskaða og sjálfsvígum því tilgangurinn sé ekki að einangra fólk eða útskúfa sem líður illa og birtir efni í þeirri von um að fá aðstoð. Eins verði ráðgjafar fengnir til starfa sem geti hvatt ungmenni til þess að leita sér hjálpar.

Telegraph

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert