Banna sólarvarnir sem skemma rifin

Kafað á kóralrifjunum við Florida Keys.
Kafað á kóralrifjunum við Florida Keys. Ljósmynd/Ferðamálaráð Florida Keys

Sóldýrkendur á Florida Keys-eyjaklasanum munu innan skamms ekki geta nálgast nokkrar vinsælar tegundir sólarvarna. Borgarráð Key West samþykkti í síðustu viku að banna þau krem sem notuð eru til sólarvarna og innihalda tvö efni, oxybenzone og octinoxate, sem sannað er að skaði kóralrifin.

Bannið mun taka gildi í janúar árið 2021. Þar í frá verður bannað að selja vörur sem innihalda efnin tvö innan borgarmarkanna. Fyrirmyndin að banninu kemur frá Hawaii en þar hafa sambærilegar vörur nú þegar verið bannaðar.

„Í mínum huga er þetta mjög einfalt mál,“ segir Teri Johnston, borgarstjóri Key West. „Það eru þúsundir tegunda af sólarvörnum til en við eigum bara eitt kóralrif.“

Johnston minnti á að kóralrifin við Florida Keys eru þau stærstu við meginland Bandaríkjanna. Kóralrifin eru ekki aðeins mikilvæg öllu lífríki hafsins heldur byggjast helstu atvinnugreinar, s.s. fiskveiðar og ferðamennska, á heilbrigði þeirra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert