Eru mælingar sem innihalda leshraða rétt stefna?

Lesskilningur skiptir meira máli en leshraði.
Lesskilningur skiptir meira máli en leshraði.

Miklar umræður hafa átt sér stað síðustu ár um slæma stöðu íslenskra ungmenna í lestri (nr. 35 af 69 þjóðum), náttúrufræði (nr. 39 af 69 þjóðum) og stærðfræði (nr. 32 af 69 þjóðum í PISA 2015). Til samanburðar er Finnland nr. 4 í lestri, nr. 5 í náttúrufræði og nr. 13 í stærðfræði.

Stjórnvöld hafa sérstaklega beint sjónum að mögulegum aðgerðum í sambandi við lesturinn. Lítið hefur heyrst um aðgerðir fyrir náttúrufræði og stærðfræði. Þó rekum við lestina í hópi Norðurlandanna í lestri, stærðfræði og náttúrufræði.

Í sambandi við lestur má spyrja hvort þær aðgerðir sem stjórnvöld nota séu alltaf byggðar á réttum forsendum og hvort við séum að mæla þær breytur sem skipta máli fyrir það sem við viljum bæta.

Hvað gerum við?

Eitt að því sem Menntamálastofnun (MMS) hefur valið að gera, frá því í september 2017, er að framkvæma mælingar sem innihalda leshraða hjá ca. 40.000 börnum og unglingum í grunnskólum landsins frá 1. til 10. bekkjar. MMS kallar þessar mælingar „lesfimi“ sem byggist á lestrarnákvæmni, leshraða og hrynrænum þáttum tungumálsins. Lesfimiviðmið sýna síðan fjölda rétt lesinna orða á mínútu. Fyrstu niðurstöður frá september 2017 til september 2018 sýndu aukningu upp á 11 orð á 10 aldurshópa, eða 1,1 orð á hvern aldurshóp. 9. bekkur stóð í stað og 10. bekkur sýndi bætingu upp á tvö orð. Vonandi eru þetta ekki lýsandi tölur fyrir lesskilning. Það er líka vert að huga að því að u.þ.b. 30% af börnum kunna ekki að lesa eftir 1. bekk, samt er verið að prófa leshraða/lesfimi í þeim aldurshópi. Það má spyrja hvaða áhrif slíkar endurtekningar mælingar hafi á áhuga hjá börnum og unglingum á lestri. Unglingur sem hefur lokið 10. bekk hefur farið í gegnum 30 mælingar á leshraða á 10 ára skólagöngu.

Þegar ég heyrði um þessar mælingar á leshraða (lesfimi) varð ég mjög hissa. Erum við virkilega að fara í mælingar á leshraða í svo stórum stíl (120.000 mælingar á ári)? Eftir öll mín ár í Noregi hafði ég aldrei heyrt að leshraði væri mikilvægt viðfangsefni í skólum Noregs. Leiðbeinandi minn í doktorsnáminu, John Whiting, gaf mér mörg góð ráð. Eitt af þeim var að reyna alltaf að vinna með fremstu vísindamönnum á þeim sviðum sem þú ert að vinna á. Að vinna með góðu fólki gefur byr undir báða vængi. Þannig að mig langaði að athuga hvað fremsti fræðimaður Norðmanna í lestrarfræðum, Finn-Egil Tønnesen, segði um að framkvæma mælingar sem innihéldu leshraða.

Finn-Egil sagði að hann myndi ekki mæla leshraða og að leshraði væri ekki mikið í umræðunni í Noregi. Mikilvægara væri að vinna með það að börn yrðu vel læs og að stuðla að nógu mikilli þjálfun. Ég talaði einnig um þetta við Heikki Lyytinen sem er einn af fremstu fræðimönnum Finnlands á sviði lesturs. Hann sagði að nær væri að spyrja krakkana hversu margar bækur þau hefðu lesið undanfarinn mánuð og hverjar hefðu verið áhugaverðastar. Þá hafði ég heyrt frá tveimur sterkum fræðimönnum í Noregi og Finnlandi. Ég ákvað að spyrja einn af fremstu fræðimönnum Breta, John Stein, sem er prófessor við Magdelene College við Oxford University. John var sammála sjónarmiðum Finn-Egils og Heikki. Við ættum ekki að mæla leshraða heldur leggja áherslu á að börn lærðu að lesa og þjálfunina. Kveikja áhuga hjá börnunum.

Hermundur Sigmundsson prófessor.
Hermundur Sigmundsson prófessor. Kristinn Magnússon

Hvað um rannsóknir á lestri?

Stanislas Dehaene er einn fremsti sérfræðingur í heiminum á sviði heila og færni og hefur sýnt fram á með rannsóknum sínum að bókstafshljóð, kunnátta og það að verða læs er það allra mikilvægasta fyrir lestrarfærni.

Rannsóknir Kate Nation við Oxford University og samstarfsmanna hafa sýnt að það að læra að lesa og að lesa mikið er lykillinn að velgengni í lestri og að öðlast góðan lesskilning. Ef við skoðum hvaða breytur eru mikilvægar í sambandi við lestur þá er það klárlega eins og Stanislas, Finn-Egil og Kate benda á, að kunna að lesa, lesa mikið og lesskilningur. Þessir fræðimenn tala ekki um leshraða sem breytu. Ef maður skoðar t.d. 100 m hlaup er hraði lykilatriði og lykilbreyta fyrir árangur. Þar er heimsmet Usain Bolt hjá körlum 9,58 sek. Í lestri er lesskilningur hins vegar algjört lykilatriði og börn og unglingar finna þann hraða sem passar fyrir þau. Stundum þarf maður að lesa hægt og rólega til að ná innihaldinu en stundum getur maður lesið hraðar. Þegar maður nær innihaldinu í textanum þá er hraðinn réttur fyrir mann.

Fylgjum ráði Heikki og annarra framúrskarandi fræðimanna og leggjum frekar áherslu á fjölda bóka sem börnin hafa lesið síðasta mánuðinn og hvaða þrjár voru skemmtilegastar.

Notum frekar fjármagn í að útbúa bækur af mismunandi erfiðleikastigi fyrir börn þar sem þau fá réttar áskoranir; styrkjum rithöfunda í að skrifa góðar spennandi bækur fyrir börn og unglinga; styrkjum skólabókarsöfn og bókasöfn í bæjarfélögum.

Eflum lestrarþjálfun og þar með lesskilning.

Her­mund­ur Sig­munds­son er pró­fess­or í lífeðlis­legri sál­fræði við Há­skól­ann í Þránd­heimi og Há­skól­ann í Reykja­vík og skrif­ar pistla um vís­indi og sam­fé­lag. Pist­ill­inn birt­ist fyrst í Sunnu­dags­blaði Morg­un­blaðsins 9. febrúar 2019.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert