Ruglaði Pókemon saman við barnaníð

Pikachu Pokémon-fígúrur á sérstakri Pikachu-hátíð í Tokýó. Mynd úr safni.
Pikachu Pokémon-fígúrur á sérstakri Pikachu-hátíð í Tokýó. Mynd úr safni. AFP

Google hefur nú dregið til baka lokun sína á síðum nokkurra þekktra YouTube-reikningshafa vegna misskilins ótta um að þar væri barnaníð á ferðinni.

BBC segir YouTube-notendurna Mystic7, Trainer Tips og Marksman, sem eru með rúmlega 3,5 milljónir fylgjenda samanlagt, hafa lent í því að YouTube-rásum þeirra var lokað eftir að þeir birtu myndbönd af sér að spila Pokemon GO.

Var þeim sagt að myndbönd þeirra brytu í bága við reglur YouTube af því að þar væri bannað að birta „nokkra þá athöfn sem kyngerir börn“.

Billiam Thies, eigandi einnar YouTube-rásanna, segir Google ekki bara hafa lokað YouTube-rás hans heldur líka öllum hans reikningum hjá Google. Forsvarsmenn Google, sem á YouTube, hafa nú viðurkennt að það hafi verið mistök.

„Fólk var að láta mig vita á Twitter að YouTube-rásin mín lægi niðri,“ segir hann. „En af því að Google-reikningnum mínum hafði verið eytt, þannig að ég hafði ekki aðgang að tölvupóstinum mínum, gat ég ekki séð hvað hafði gerst.

BBC segir ekki ljóst hversu mörgum reikningum var eytt fyrir mistök, en svo virðist sem þeir hafi nú allir verið virkjaðir á ný eftir að eigendur þeirra vöktu máls á þessu á samfélagsmiðlum.

Segja forsvarsmenn YouTube að telji fólk myndböndum sínum hafa verið eytt fyrir mistök sé annar eftirlitsaðili fenginn til að skoða myndböndin og endurmeta. Það hafi verið gert í þessu tilfelli og reikningarnir í kjölfarið verið opnaðir á ný.

BBC segir fjölmarga samfélagsmiðlanotendur hins vegar velta því nú fyrir sér hvernig YouTube tókst að rugla efni tengdu tölvuleik við eitthvað ólöglegt. Vandinn kunni mögulega að tengjast skammstöfuninni CP, sem í Pokemon Go vísar til bardagastiga (e. combat points) og er ein af mælistikum á styrk Pokemon-fígúru í bardaga.

CP-skammstöfunin getur hins vegar líka, utan tölvuleikjaheimsins, vísað til barnakláms (e. child pornography). Google hefur hins vegar ekki viljað tjá sig um hvort þetta sé það sem hafi gerst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert