Tilraunadýrahús í Vatnsmýrinni?

Nýjar uppgötvanir sem auka getu mannins til að breyta erfðamengi manna og dýra geta haft gríðarlegar breytingar í för með sér í læknavísindum. Þessi bylting mun auka þörfina á þjálfun heilbrigðisstarfamanna og mikilvægt að hér rísi tilraunadýrahús, segir í ritstjórnargrein Læknablaðsins sem Hans Tómas Björnsson læknir skrifar. 

Hans Tómas er dósent í færsluvísindum (e. translational medicine) og barnalækningum við Háskóla Íslands og yfirlæknir klínískrar erfðafræði við Landspítala – háskólasjúkrahús. Hann er einnig dósent í barnalækningum og erfðafræði við Johns Hopkins-háskóla í Baltimore.

Umfjöllun um Hans Tómas á Vísindavef Háskóla Íslands

Hans Tómas Björnsson, barnalæknir og lektor við Johns Hopkins-háskólasjúkrahúsið.
Hans Tómas Björnsson, barnalæknir og lektor við Johns Hopkins-háskólasjúkrahúsið. mbl.is

„Nýlega hefur orðið gríðarmikil aukning í getu okkar til að breyta erfðamengi manna og dýra. Þetta byggir á tveimur uppgötvunum sem komið hafa úr rannsóknum á eins konar ónæmiskerfi baktería, en það eru kerfi sem hjálpa bakteríum að verja sig fyrir veirusýkingum.

Fyrst var uppgötvað kerfi skerðiensíma sem leyfir bakteríum að skera erfðamengi veira á frekar almennan hátt en þessi uppgötvun markaði upphafið á líftæknibyltingunni. Nýjasta afurð þessarar byltingar er líftæknilyfið nusinersen (spinraza) sem tekið var í notkun á Íslandi 2018 til að meðhöndla alvarlegan taugasjúkdóm í börnum.

Seinni uppgötvunin snýr að enn sértækara kerfi úr bakteríum sem heitir CRISPR-Cas9-kerfi en þetta kerfi hjálpar bakteríum að eyða kerfisbundið veirum úr erfðamengi sínu með því að læra að þekkja og skera sértæk svæði í veirunum með afar fullkomnum hætti.

CRISPR-Cas9-kerfið gerir nú vísindamönnum meðal annars kleift að setja stökkbreytingar sem finnast í sjúklingum í bæði frumur og tilraunadýr með meiri virkni og á mun fljótlegri máta en áður var hægt.

Þessi uppgötvun breytir því hvernig vísindamenn þróa og prófa nýjar meðferðir í gegnum færsluvísindi (translational medicine), sem er það svið sem snýr að færslu grunnuppgötvana til sjúklinga, en afurð grunn- og færsluvísinda getur verið einstaklega verðmæt og hefur til dæmis Bandaríska matsstofnunin (National Institute of Standards and Technology) metið að hver Bandaríkjadalur sem fer í slíkar rannsóknir skilar sér 44-falt til baka til bandarísks þjóðfélags,“ segir Hans Tómas í ritstjórnargrein Læknablaðsins.

Þessi bylting mun auka þörfina fyrir þjálfun heilbrigðisstarfsmanna með þekkingu á erfðafræði og færsluvísindum og er augljóst að á allra næstu árum verður einnig gríðarlega mikilvægt að tilraunadýrahús rísi í „Vísindaþorpinu í Vatnsmýrinni” til að tryggja eðlilega framþróun lífvísinda á Íslandi, segir Hans Tómas.

„Þessar tvær uppgötvanir sýna mikilvægi grunnrannsókna fyrir framfarir í læknisfræði og sýna hve erfitt er að spá fyrir um hvaða rannsóknir eiga eftir að hafa mestu áhrifin. Það er því afar mikilvægt að hafa öflugt styrkjakerfi fyrir grunn- og færsluvísindi á heilbrigðissviði til þess að við getum tekið þátt í þessari byltingu,“ segir Hans Tómas í ritstjórnargrein sem ber fyrirsögnina: Að leika guð  framfarir í erfðafræði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert