Fyrsta þrívíddarprentaða hjartað

Rannsakendur við háskólann í Tel Aviv kynntu í dag fyrsta …
Rannsakendur við háskólann í Tel Aviv kynntu í dag fyrsta þrívíddarprentaða hjartað. Það er á stærð við hjarta kanínu og er því svipað stórt (eða lítið) og kirsuber. AFP

Vísindamenn í Ísrael afhjúpuðu í dag hjarta sem prentað var í þrívíddarprentara. Hjartað inniheldur líkamsvef og æðar. Hjartað var kynnt í háskólanum í Tel Aviv og sagt vera læknisfræðilegt afrek sem færir læknavísindin framar í því að auka möguleika við líffæraígræðslur.

„Þetta er í fyrsta sinn sem tekst að hanna og prenta hjarta í heilu lagi með frumum, blóðæðum, sleglum og hjartahólfum,“ segir prófessor Tal Dvir, sem fór fyrir rannsóknarverkefninu. Áður hefur tekist að prenta rétta lögun af hjarta, en án frumna og blóðæða.

Prófessor Tal Dvir ásamt hjartanu sem prentað var í þrívíddarprentara …
Prófessor Tal Dvir ásamt hjartanu sem prentað var í þrívíddarprentara og er það fyrsta sem inniheldur frumur, blóðæðar, slegla og hjartahólf. AFP

Hjarta á stærð við kirsuber

Hjartað sem kynnt var í dag er á stærð við hjarta kanínu, svipað að stærð og kirsuber. Þó enn sé langt í hjarta í mannsstærð, þá vonast rannsakendur til þess að geta einn daginn framleitt hjörtu sem nýtast í líffæraígræðslur í mönnum sem og „varahluti“ í gölluð hjörtu.

Næsta skref rannsakenda eru að kenna þrívíddarprentaða hjartanu að „haga sér“ eins og alvöru hjarta. Frumurnar eru færar um að dragast saman en geta ekki dælt blóði. „Kannski, eftir tíu ár, verða til líffæraprentarar á fremstu spítölunum og aðgerðir sem þessar verða framkvæmdar reglulega,“ segir Dvir.

Líklegra þykir þó að byrjað verði á einfaldari líffærum en hjörtum, þó svo að þörfin á þeim sé mikil. Hjarta- og æðasjúkdómar eru algengasta dánarorsök í heiminum í dag, samkvæmt upplýsingum frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (WHO), og líffæragjöf er oftast eina von sjúklinga í verstu tilfellunum. Líffæragjafar eru hins vegar af skornum skammti og margir sjúklingar láta lífið á meðan beðið er eftir nýju hjarta.

Þrívíddarprentarinn í háskólanum í Tel Aviv, sem notaður var til …
Þrívíddarprentarinn í háskólanum í Tel Aviv, sem notaður var til að prenta hjartað. AFP

Hvar liggja mörkin í þrívíddarprentun?

Með framþróun tækninnar og læknavísinda vonast rannsakendur til að geta prentað hjarta í mannsstærð á næstu árum. Til þess þarf meðal annars að þróa betri upplausn í þrívíddarprenturunum sjálfum og þróa tækni sem gerir vísindamönnum kleift að prenta smágerðar blóðæðar.

Þrívíddarprentun hefur boðið upp á fjölda nýrra möguleika á hinum ýmsu sviðum og gefið góð fyrirheit um framtíðina en á sama tíma vakið upp siðferðislegar spurningar um hvað er við hæfi að prenta í þrívíddarprentara. Á meðan vísindamenn keppast við að hanna þrívíddarprentuð hjörtu er annars staðar í heiminum unnið að því að þrívíddarprenta byssur, svo dæmi sé tekið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert