Bilar strax á öðrum degi

Á Galaxy Fold símanum eru tveir skjáir og sex myndavélalinsur.
Á Galaxy Fold símanum eru tveir skjáir og sex myndavélalinsur. AFP

Fyrsti samanbrjótanlegi snjallsími Samsung, Galaxy Fold, var fyrr í vikunni sendur til ýmissa tækniblaðamanna um heiminn til að fjalla um og reyna tækið. Líklega voru stjórnendur tæknirisans þó örlítið fljótir á sér en hjá mörgum sem fengu símann sendan, hefur skjárinn, og þar með síminn, skemmst og hætt að virka eftir einungis nokkurra daga notkun.

Á meðal þeirra sem hafa lent í vandræðum með nýju græjuna eru Mark Gurman hjá Bloomberg og Dieter Bohn hjá The Verge. Þá lenti Steve Kovach hjá CNBC í að síminn bilaði strax á öðrum degi. Einn vinsælasti tækni-myndbandagerðarmaðurinn á netinu í dag, Marques Brownlee, fjallar um málið á Youtube-rás sinni. Myndbandið, sem Brownlee birti fyrir um fimmtán klukkustundum síðan, hefur þegar fengið yfir þrjár milljónir áhorfa.

Pillaði filmuna af

Brownlee, sem einnig lenti í því að síminn sem hann fékk til umfjöllunar skemmdist, segir að skemmdirnar megi mögulega rekja til þess að hann hafi reynt að pilla af öryggisfilmuna á skjá símans. Stuttu eftir að hann gerði það fóru skemmdir að gera vart við sig. Áðurnefndur Mark Gurman hafði gert slíkt hið sama, áður en síminn hans fór að skemmast. Þó hafa aðrir sleppt því að pilla umrædda filmu af og samt lent í því að síminn skemmist, svo orsök skemmdanna liggur ekki ljós fyrir.

Samsung hefur fengið tilkynningu um vandamálið og hefur, a.m.k. í sumum tilvika, útvegað umræddum blaðamönnum nýja síma. Fyrirtækið hefur sagt að það muni rannsaka málið ítarlega.

 Hér má sjá Brownlee fjalla um málið.

240.000 krónum

Samsung vakti mikla athygli þegar fyrirtækið tilkynnti fyrr í vetur um komu símans, en nú í vikunni fengu aðrir en starfsmenn fyrirtækisins í fyrsta skipti að prófa símann. Verð græjunnar er um 2000 dollarar, jafnvirði um 240.000 íslenskra króna. Sem stendur geta einungis viðskiptavinir AT&T í Bandaríkjunum fest kaup á símanum en í næstu viku verður hann einnig seldur hjá T-Mobile þar vestra.

Justin Denison, varaforseti vörumarkaðsmála hjá Samsung, kynnir símann í febrúar.
Justin Denison, varaforseti vörumarkaðsmála hjá Samsung, kynnir símann í febrúar. AFP



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert