Metan á Mars bendir til lífs

Curiosity, nýrra Mars-vélmenni Nasa, kann að taka sjálfsmyndir. Þessi sjálfa …
Curiosity, nýrra Mars-vélmenni Nasa, kann að taka sjálfsmyndir. Þessi sjálfa var tekin 20. júní. Hann er sá sem var að verki þegar metanið fannst. Ljósmynd/Nasa

Nokkuð magn af metani mældist í loftinu við Mars. Það gefur til kynna að lifandi örverur haldi þar til, því metan er gas sem er venjulega framleitt af lífverum, eins og kemur fram hjá New York Times sem greindi fyrst frá fundinum.

Metan hefur fundist áður á Mars. Þegar Curiosity, rannsóknarvélmenni NASA, kom fyrst til Mars árið 2012 fannst ekkert metan. Ári síðar fannst síðan nokkuð mikið magn en magnið sem hefur fundist núna er þrefalt á við það sem fannst þá. 

Þegar þetta lá fyrir í mælingum vísindamanna á miðvikudaginn í þessari viku urðu þeir svo spenntir að þeir boðuðu til aukarannsókna yfir helgina. Og þær tilkynntu þeir um í tölvupóstum til sumra starfsmanna hjá NASA og New York Times komst yfir þá pósta. NASA hefur ekki sjálf sagt frá þessu.

Í frétt NY Times segir að markvert sé að svona mikið magn af metani skuli mælast á Mars, það er ef þetta reynist rétt. Það stafar af því að almennt brotnar metan niður á nokkrum öldum af völdum sólarljóss og efnaskipta, þannig að það sem núna kann að finnast verður að vera nokkuð nýlegt.

Frekari rannsóknir á að gera á metaninu, fyrirmæli voru send af jörðu til Mars til rannsóknarvélmennisins og því sagt að kanna þetta betur. Og niðurstaða úr þeirri könnun gæti verið að vænta nú í upphafi næstu viku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert