Fundu séríslenskan rostungastofn

Beinaleifar rostunga hafa fundist aðallega á Suðvesturland, Vesturlandi og Vestfjörðum. …
Beinaleifar rostunga hafa fundist aðallega á Suðvesturland, Vesturlandi og Vestfjörðum. Einn algengasti fundarstaðurinn er á sunnanverðu Snæfellsnesi. Þar skolast stundum bein, tennur og hausar á land eftir þungt brimrót. Einnig hafa beinaleifar fundist í húsagrunnum, við fornleifauppgröft og hafnargerð. Ljósmynd/Hilmar J. Malmquist

„Þetta er mjög merk viðbót við fánuna okkar þó að tegundin sé útdauð,“ segir Hilmar J. Malmquist, forstöðumaður Náttúruminjasafns Íslands, um þá niðurstöðu hóps vísindamanna að sérstakur íslenskur rostungastofn hafi lifað á Íslandi fram að landnámi.

Grein um rannsóknina, sem unnin var af hópi vísindamanna frá Íslandi, Danmörku og Hollandi, var í dag birt í vísindatímaritinu Molecular Biology and Evolution og nefnist hún Disappearance of Icelandic walruses coincided with Norse settlement.

Fjórir íslenskir vísindamenn eru meðal höfunda greinarinnar, en auk Hilmars eru það þeir Snæbjörn Pálsson erfðafræðingur, Bjarni F. Einarsson fornleifafræðingur og Ævar Petersen dýrafræðingur. Aðrir greinahöfundar eru danskir og hollenskir vísindamenn.

Niðurstaðan var fengin með DNA-rannsókn á hvatberum úr 800-900 ára gömlum tönnum, beinum og hauskúpum 34 rostunga, sem fundist hafa á Íslandi. Þeir mynduðu sérstakan erfðafræðilegan stofn íslenskra rostunga sem varð svo útdauður um landnám, eða fyrir um 1100 árum.

Hefur valdið heilabrotum í töluverðan tíma

„Það er tvennt sem er athyglisverðast í þessu,“ segir Hilmar í samtali við mbl.is. „Í fyrsta lagi að hér hafi verið sérstakur rostungastofn, sem er erfðafræðilega aðgreindur frá öðrum rostungum í Atlantshafinu. Það er alveg ný vitneskja. Í öðru lagi er það svo að stofninn hafi liðið undir lok í kringum landnám og þjóðveldisöldina.“ Segir Hilmar íslenska rostungastofninn hverfa upp úr miðri 13. öld, en eftir það finnast ekki fleiri dæmi um þennan stofn.

Undanfarin ár og jafnvel aldir hafa ratað hingað 1-2 rostungar á ári, en eins og Hilmar bendir á eru þeir flækingar en þessi séríslenski stofn hafði hér fasta viðveru.

„Þessi tilvist rostunga hér hefur valdið mönnum heilabrotum í töluverðan tíma,“ segir hann og nefnir vísbendingar um veru þeirra hér á landi sem m.a. felast í örnefnum og sögnum fornrita. Þá hafi líka í gegnum árin safnast upp góður gagnagrunnur beinaleifa rostunga sem fundist hafa við mannvirkjagerð, hafnarframkvæmdir og vegna rofs við ströndina. „Við höfum hins vegar haft lítið fast í hendi um þetta fyrr en núna,“ bætir hann við.

Það var svo Náttúruminjasafnið sem hafði forgöngu um rannsóknina er það ákvað fyrir tveimur árum að láta ráðast erfðafræðirannsóknir og aldursgreiningar á rostungsleifunum. „Og þær hafa sýnt að þetta er sérstofn,“ segir Hilmar.

Eru Lewis-taflmennirnir úr íslenska rostunginum?

Hilmar segir frekari rannsóknir vera í farvatninu. „Þær beinast m.a. að afurðum rostunganna, til dæmis að útskornum munum úr rostungstönnum,“ segir hann og kveður ýmislegt þar sem gaman sé að rannsaka frekar.

Hilmar nefnir að eitt af því sem væri gaman að fá skorið úr um sé uppruni Lewis-taflmannanna, sem eru ein af þjóðargersemum Breta. Ein kenningin er sú að þeir hafi verið skornir út af Mar­gréti hinni högu í Skál­holti 1180-1200 og segir Hilmar ákveðin rök fyrir því. „Þeir eru enda meðal þeirra muna sem væri gaman að fá sýni af til að staðfesta hvort rostungarnir sem eru í þessum taflmönnum hafi komið frá Íslandi.“

Þá eru hafnar rannsóknir á lögun beinaleifanna og mælingar á þeim líffærum því dýrastofnar geti oft verið mismunandi að beinagerð. Segir Hilmar áhuga á að bæta við athugunum á fleiri sýnum en tekin hafa verið til þessa.

Hann segir svo ekki síður athyglisvert að niðurstöður rannsóknarinnar séu með þeim fyrstu sem benda til ofveiði manna á stærri sjávarspendýrum. „Þetta er betur þekkt með landdýr en síður með sjávarspendýr,“ segir hann. Ekki sé þó hægt að útiloka að umhverfisþættir hafi ýtt undir útdauða íslenska rostungsins, þar sem hlýtt var hér við land á þessum tíma þó að aðrir umhverfisþættir hér hafi hentað honum vel.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert