„Værum að bregðast hlutverki okkar sem gæslumenn“

Ólafur K. Nielsen, vistfræðingur hjá Náttúrufræðistofu Íslands, gagnrýndi stefnu Skógræktarinnar …
Ólafur K. Nielsen, vistfræðingur hjá Náttúrufræðistofu Íslands, gagnrýndi stefnu Skógræktarinnar harðlega í fyrirlestri sínum. mbl.is/Þorsteinn

Stórtæk skógrækt í tengslum við aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum gæti höggvið nærri nokkrum tegundum mófugla hér á landi, en sex þeirra eru flokkaðar sem ábyrgðartegundir Íslands. Ólafur K. Nielsen, vistfræðingur hjá Náttúrufræðistofu Íslands, sem hefur sérhæft sig í málefnum fugla, segir að fyrirhugaðar aðgerðir í skógrækt geti leitt til stofnhruns eða verulegrar minnkunar á heildarstofni, eftir því hvaða tegund sé um að ræða.

Ólafur hélt fyrirlestur á líffræðiráðstefnunni á föstudaginn á málstofu um hvað aðgerðaáætlunin þýði fyrir íslensk þurrlendisvistkerfi. Vísaði hann til þess að í aðgerðaáætluninni væri meðal annars að finna hugmyndir um stóraukna skógrækt hér á landi til að auka bindingu kolefnis. Þá gengi stefna Skógræktarinnar, samkvæmt ritinu Skógar á Íslandi – stefna á 21. öld, út á að skógar verði um 12 þúsund ferkílómetrar af flatarmáli landsins. Þar af verði fimm þúsund ferkílómetrar nytjaskógur, eitt þúsund ferkílómetrar yndisskógur og sex þúsund ferkílómetrar birkiskógur.

Skógrækt í 42% af úthagasvæði landsins

Í dag eru um tvö þúsund ferkílómetrar af skógum hér á landi. „Því er verið að tala um 10 þúsund ferkílómetra og allt á að gerast undir 400 metra hæð,“ sagði Ólafur í fyrirlestrinum. Svæði undir 400 metrum, sem jafnan er kallað láglendi, er samtals 44.391 ferkílómetri. Ólafur benti á að um 20 þúsund ferkílómetrar af láglendi yrðu aldrei notaðir undir nýja skóga. Þar væri um að ræða jökla, fjörur, núverandi skóga, hraun, votlendi auk bæja- og borgarlands.

Því væri fyrst og fremst verið að horfa til graslendis, moslendis, moldar, mela og mólendis, en mólendi er þar langstærsti hlutinn. Samkvæmt þessu er að sögn Ólafs verið að horfa til þess að nýskógur komi til á um 42% af landi sem geti flokkast sem úthagi og er undir 400 metra hæð.

Hefði m.a. áhrif á heiðlóu, spóa og fálka

Tegundirnar sem Ólafur horfir sérstaklega til vegna ábyrgðahlutverks Íslands eru heiðlóa, lóuþræll, spói, stelkur, jaðrakan og fálki, en fimm fyrstu fuglarnir eru allir svokallaðir mófuglar. Segir hann að spóar hér á landi telji til dæmis um 70% af Evrópustofninum, en þegar horft er til ábyrgðartegunda er miðað við að alla vega 20% af viðkomandi Evrópustofni noti land til annaðhvort varps eða komi þar við á fartímanum um vor og haust.

Heiðlóan er einn þeirra fugla sem Ólafur segir að muni …
Heiðlóan er einn þeirra fugla sem Ólafur segir að muni verða fyrir miklu höggi með aukinni skógrækt. mbl.is/Ómar Óskarsson

Samtals eru 25 ábyrgðartegundir hér á landi og hefur Ísland skuldbundið sig til að standa vörð um þær. Ólafur segir að tegundirnar 19 sem ættu ekki að verða fyrir áhrifum af mikilli skógrækt séu aðallega sjófuglar og fuglar sem hafist við í fjörum.

Hverfa eftir 5-10 ár af skógrækt

Í fyrirlestri sínum vísaði Ólafur til rannsókna á áhrifum skógræktar á mófugla, meðal annars frá Skotlandi, þar sem kom fram að fuglarnir hverfa fljótlega þegar tré fara að vaxa. „Við vitum að þessir fuglar hverfa á fyrstu 5-10 árunum eftir að skógurinn byrjar að vaxa upp. Það er ekkert annað fyrir þá að fara, þetta er þeirra búsvæði,“ segir Ólafur við mbl.is eftir fundinn og bætir við. „Ef við skerðum búsvæði þeirra skerðum við jafnframt stofninn.“

Það fer eftir stofnunum hversu mikil áhrifin gætu verið til fækkunar að sögn Ólafs, eða frá 29% af stofninum í tilviki heiðlóu og 33-40% hjá þremur öðrum tegundum mófugla og upp í 75% hjá jaðrakan. Í tilfelli fálkans væri um að ræða 50% fækkun. „Það er alveg útséð hvað gerist með þessa fugla ef af verður – stofnar þeirra minnka,“ segir Ólafur. „Fyrir tegundir eins og jaðrakan væri þetta stofnhrun og fyrir aðrar tegundir væri þetta veruleg minnkun á heildarstofni.“

Hefur áhrif á mun fleiri tegundir

„Við værum að bregðast hlutverki okkar sem gæslumenn þessara tegunda,“ segir Ólafur um afleiðingar þess að hrun yrði í stofnunum. „Það sem gerist neikvætt á Íslandi munu menn skynja úti í heimi. Þar verða færri fuglar sem koma.“

Hann tekur fram að í fyrirlestri sínum hafi hann aðeins beint sjónum að fuglum sem séu ábyrgðartegundir. Hins vegar myndi skógrækt hafa áhrif á mun fleiri mófugla sem séu hins vegar hluti af stórum Evrópustofni og myndi ekki hafa marktæk áhrif á heildarstofninn, þótt það hefði mikil áhrif hér heima. Nefnir hann til dæmis steindepil og snjótittling í því samhengi. Ólafur nefnir hins vegar að með breytingum gætu aðrir fuglar komið hingað og það sé þegar farið að gerast með hlýrra veðurfari. Það séu hins vegar tegundir með góða verndarstöðu í Evrópu. Segir hann það jákvæða viðbót við íslenska fuglafánu, en slík breyting bjargi ekki nýjum tegundum fyrir þær sem verið væri að fórna.

Auk mófugla segir Ólafur að stórtæk skógrækt hefði áhrif á …
Auk mófugla segir Ólafur að stórtæk skógrækt hefði áhrif á fálkastofninn. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Hörð gagnrýni á Skógræktina

Sagði Ólafur að Skógræktin hefði aldrei svarað almennilega þegar bent hefði verið á afleiðingar stórtækrar skógræktar nema með útúrsnúningum sem hann taldi upp á fundinum og kallaði „kjaftæði“. Þá tók hann fram að það væri framkvæmdaaðila að sýna fram á meint áhrifaleysi framkvæmda.

Sagði hann að röksemdir Skógræktarinnar væru meðal annars að ekki væri um mikið land að ræða. „Það er ekki rétt. Þetta er verulega stór hluti móa og láglendis sem fer undir,“ segir hann og vísar aftur til útreikninganna sem nefndir eru hér að framan.

Þá segir hann að ítrekað hafi verið sagt að fuglarnir muni bara fara annað. Segir hann þá röksemd heldur ekki ganga upp. Fullorðnir fuglar séu átthagatryggir og haldi áfram að koma á sama blettinn þangað til þeir deyja og ungarnir dreifist lítið. „Þú getur ekki pakkað inn í þessa móa, þeir bera ekki nema visst mikið af fuglum,“ segir hann.

Endurheimt votlendis með hlutlaus eða jákvæð áhrif

Ólafur taldi upp nokkur verkefni úr aðgerðaáætluninni sem helst hafa áhrif á vistkerfi fugla hér á landi og sagði að í flestum tilfellum væru áhrifin hlutlaus eða jákvæð. Það ætti meðal annars við um takmarkanir og endurheimt votlendis og samstarf við sauðfjárbændur um aðgerðir. Hins vegar væri fyrirséð að áhrifin af skógræktinni væru neikvæð.

Samkvæmt aðgerðaáætluninni á að fara í mikla skógrækt til að …
Samkvæmt aðgerðaáætluninni á að fara í mikla skógrækt til að binda gróðurhúsalofttegundir. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert