Stóru netfyrirtækin í skoðun

Bás Facebook á vörusýningu í Shanghai í Kína. ESB hefur …
Bás Facebook á vörusýningu í Shanghai í Kína. ESB hefur hafið frumrannsókn á því hvernig Facebook og Google afla og nýta persónuupplýsingar. AFP

Stjórnvöld beggja vegna Atlantsála beina nú í æ ríkari mæli sjónum að því hvernig stóru samskiptanetmiðlarnir Facebook og Google nota persónuupplýsingar sem þau afla um notendur sína.

Þannig tilkynnti talsmaður framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins í byrjun vikunnar að hafin væri frumrannsókn á því hvernig þessi tvö fyrirtæki söfnuðu persónuupplýsingum og ynnu úr þeim.

Talsmaðurinn sagði að sendur hefði verið út spurningalisti til að afla upplýsinga um það hvernig Facebook og Google meðhöndluðu persónuupplýsingar. Rannsóknin beindist að því að upplýsa hvernig upplýsingunum væri safnað, unnið úr þeim, þær notaðar og breytt í söluvöru, hugsanlega til að nýta í auglýsingar. En bæði þessi fyrirtæki hafa nýtt persónuupplýsingar til að byggja upp auglýsingafyrirtæki sem afla hundraða milljarða dala tekna.

Ekki kom fram hverjir hefðu fengið þennan spurningalista en um er að ræða skref sem gæti síðar leitt til formlegrar rannsóknar.

Evrópusambandið hefur á undanförnum árum sektað Google þrívegis fyrir að misnota markaðsráðandi stöðu sína. Margrethe Vestager, sem fer með samkeppnismál í framkvæmdastjórn ESB, lýsti því yfir árið 2016 að góðar gætur yrðu hafðar á netfyrirtækjum, sem safna persónuupplýsingum, svo sem Facebook, Google og WhatsApp.

AFP

Nú er Vestager orðin varaforseti nýrrar framkvæmdastjórnar og hefur yfirumsjón með eftirliti með stafrænni starfsemi auk þess sem hún fer áfram með samkeppnismál. Hún hefur þegar látið hefja rannsókn á því hvort notkun netverslunarinnar Amazon á upplýsingum frá óháðum smásölum brjóti gegn samkeppnisreglum.

Reuters-fréttastofan, sem skýrði fyrst frá frumrannsókn ESB á Google, segir að gögn sýni að sú rannsókn beinist fyrst og fremst að leitarsíðum fyrirtækisins í einstökum löndum, auglýsingum á netinu, auglýsingum sem beinast að þjónustufyrirtækjum og upplýsingum sem safnað er um innskráningu og netvafra. 

Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu 6. desember.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert