200 milljóna viðbót fyrir orkuskipti

„Orkuskipti í samgöngum eru eitt megináhersluatriði í aðgerðaáætlun okkar í …
„Orkuskipti í samgöngum eru eitt megináhersluatriði í aðgerðaáætlun okkar í loftslagsmálum, en miklu skiptir líka að breyta ferðavenjum,“ segir umhverfisráðherra. mbl.is/​Hari

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, og Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, hafa ákveðið að veita 200 milljónum króna í styrki til uppbyggingar innviða fyrir orkuskipti í samgöngum.

Þetta kemur til viðbótar við styrki sem úthlutað var á síðasta ári, en að teknu tilliti til mótframlags styrkþega verður fjárfesting í innviðum vegna orkuskipta alls um milljarður króna á tveimur árum. Greint er frá þessu á vef Stjórnarráðsins. 

Verkefnið er hluti af aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum og uppbyggingu innviða vegna orkuskipta í samgöngum.

Fram kemur, að orkuskipti í samgöngum séu meginforsenda þess að Ísland geti staðið við skuldbindingar í loftslagmálum. Því sé jákvætt að sjá að orkuskiptin fari vel af stað hérlendis, en á dögunum var greint frá því að aldrei hafa fleiri nýir rafbílar verið skráðir hér á landi en í janúar, að því er ráðuneytin greina frá. Bent er á, að á sama tíma hafi skráning á dísil- og bensínbílum dregist umtalsvert saman. Til marks um þetta hafi aðeins ein þjóð í heiminum, Noregur, hærra hlutfall en Ísland í nýskráningum rafbíla.

Áætlað er að verja 100 milljónum króna í styrki fyrir …
Áætlað er að verja 100 milljónum króna í styrki fyrir innviði sem ætlað er að ýta undir fjölgun vistvænna bifreiða hjá aðilum sem reka fólks- og hópbifreiðar. mbl.is/​Hari

„Við erum að ná eftirtektarverðum árangri í orkuskiptum á landi. Við erum í fremstu röð á heimsvísu í rafbílavæðingu. Við beinum nú í auknum mæli sjónum okkar að möguleikum til orkuskipta á hafinu sem sést með ákvörðun okkar um að veita styrkjum til skipa og hafnarinnviða í fyrsta sinn,“ segir Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, í tilkynningunni. 

„Orkuskipti í samgöngum eru eitt megináhersluatriði í aðgerðaáætlun okkar í loftslagsmálum, en miklu skiptir líka að breyta ferðavenjum. Stór skref hafa verið stigin í hvoru tveggja á undanförnu ári, bæði með styrkveitingum, skattaívilnunum og samningnum við sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu. Nú fikrum við okkur einnig inn í orkuskipti fyrir hafnir og það er afar jákvætt skref,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, í tilkynningunni. 

Þrenns konar styrkir

Áætlað er að verja 100 milljónum króna í styrki fyrir innviði sem ætlað er að ýta undir fjölgun vistvænna bifreiða hjá aðilum sem reka fólks- og hópbifreiðar. Aðgerðin nær til allra vistvænna bíla, hvort sem þeir ganga fyrir metani, lífeldsneyti, vetni eða rafmagni.

Þá verður 70 milljónum króna varið í styrki vegna raftenginga eða hitaveitna í höfnum landsins í því skyni að ýta undir orkuskipti í haftengdri starfsemi.

Loks verður 30 milljónum króna varið í styrki fyrir hleðslustöðvar við gististaði og veitingastaði og er þar um að ræða framhald á styrkveitingum síðasta árs sem miðuðu m.a. að því að auðvelda orkuskipti í ferðaþjónustu.

Nánar hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert