Klippt og límt-maðurinn allur

Larry heitinn Tesler.
Larry heitinn Tesler. Wikimedia.org

„Vinnudagurinn þinn er auðveldari vegna byltingarkenndra hugmynda hans,“ sagði í tísti frá tölvurisanum Xerox í vikunni, þegar andlát tölvunarfræðingsins Larry Tesler var tilkynnt en hann uppgötvaði meðal annars skipanirnar klippt, afritað og límt.

Tesler fæddist í Bronx í New York-borg árið 1945 og lagði stund á nám í Stanford-háskóla í Kaliforníu. Eftir útkrift sérhæfði hann sig í lausnum sem gerðu tölvur notendavænni, svo sem að kynna til sögunnar skipanirnar klippt, afritað og límt. Þetta var í Sílikondalnum á sjöunda áratugnum meðan tölvur voru aðeins örfáum aðgengilegar. Það átti eftir að breytast. 

Tesler vann fyrir mörg tölvufyrirtæki á löngum ferli, svo sem þróunardeild Xerox í Palo Alto, áður en Steve Jobs sótti hann til Apple, þar sem hann varði sautján árum og var um tíma yfir vísindadeildinni.

Eftir það vann hann meðal annars um tíma hjá bæði Amazon og Yahoo, auk þess að sinn fjölbreyttum verkefnum, ekki síst við kennslu og fræðslu á sviði tölvunarfræðinnar.
„Það er óskráð regla að þegar maður hefur unnið sér inn eitthvað af peningum sest maður ekki bara í helgan stein heldur reynir að fjármagna önnur fyrirtæki,“ sagði hann við BBC í Sílikondalnum árið 2012. „Fátt er meira spennandi en að deila því sem maður hefur lært og tileinkað sér með næstu kynslóð.“

Hermt er að Tesler hafi einfaldlega byggt klippt og límt-aðferðina á þeim gjörningi í eiginlegri merkingu, það er þegar fólk klippir eitthvað áþreifanlegt burt, flytur það og límir annars staðar. Aðferð sem til dæmis er vel þekkt úr sögu prentlistarinnar. Skipunina var fyrst að finna í hugbúnaði og tölvu frá Apple sem kallaðist Lísa árið 1983 og í frumútgáfunni af Macintosh sem kom á markað ári síðar.

Nánar er fjallað um Larry Tesler í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert