Sápa betri en sótthreinsispíri

Sápa leysir upp fituhimnuna og „veiran dettur í sundur eins …
Sápa leysir upp fituhimnuna og „veiran dettur í sundur eins og spilaborg og verður óvirk“. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Veikasti hlekkur kórónuveirunnar, líkt og annarra veira, er fituhimna hennar. Sápa leysir upp fituhimnuna og „veiran dettur í sundur eins og spilaborg og verður óvirk“. Sótthreinsispíri hefur svipuð áhrif en er í raun ekki alveg jafngóður og venjuleg sápa til þess að gera veirur óvirkar.

Þá virka bakteríudrepandi sápur eða krem í raun aðeins vegna sápunnar í þeim, enda geri bakteríudrepandi efnin líklega ekkert við veirurnar. Þetta skrifar Páll Þórðarson, efnafræðingur og prófessor við UNSW-háskólann í Sydney í Ástralíu, á Facebook, þar sem hann svarar spurningunni: „Af hverju virkar sápa svona vel á kórónuveiruna (og reyndar flestar aðrar veirur)?“

Páll útskýrir að kórónuveiran sé í raun sjálfsamsett nanóeind (e. self-assembled nanoparticle), en hans aðalviðfang í efnafræðinni síðustu 20 ár hafi verið sjálfsamsett efni og nanótækni. Kveðst hann alltaf hafa verið hugfanginn af veirum, sem séu „fallegustu“ dæmin sem við höfum í náttúrunni af því þegar þessi tvö svið efnafræðinnar komi saman. 

Önnur ástæða þess að ég hef verið hugfanginn af veirum var þegar ég lærði um visnu, mæðuveiki og frumkvöðlastarf Margrétar Guðnadóttur (1929-2018), sem var fyrsta konan til að fá prófessorsstöðu við Háskóla Íslands, en hún var heimsfræg fyrir rannsóknir sínar á veirusjúkdómum. Þess má geta að barnabarn hennar er líka orðin heimsfræg, þ.e. Hildur Guðnadóttir tónskáld og óskarsverðlaunahafi.

Þá fjallar Páll með ítarlegum hætti um hvernig veirur virka, en hægt er að lesa færslu hans í heild hér að neðan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert