Hve lengi lifir veiran á mismunandi yfirborði?

AFP

Kórónuveiran berst helst á milli manna með snerti- eða dropasmiti, en einnig er hægt að smitast með snertingu við hlut sem sýktur einstaklingur hefur snert. Agnir úr kórónuveiru fundust í skemmtiferðaskipinu Diamond Princess 17 dögum eftir að farþegar yfirgáfu skipið.

Kórónuveiran lifir mislengi á mismunandi yfirborði, en í umfjöllun Guardian er rætt við tvo sérfræðinga um áhætturnar sem fylgja því að snerta algenga snertifleti.

Diamond Princess var líkt við fljótandi farsóttarsjúkrahús. Hundruð farþega smituðust …
Diamond Princess var líkt við fljótandi farsóttarsjúkrahús. Hundruð farþega smituðust af kórónuveirunni um borð og tíu létust. AFP

Akiko Iwasaki, doktor í ónæmisfræðum, og Julia Marcus, sóttvarnalæknir og prófessor við læknavísindasvið Harvard-háskóla, eru sammála um að þó að ríbósakjarnsýra (e. RNA) úr veirunni hafi fundist í Diamond Princess þýði það ekki að veiran hafi verið virk eða að snerting við yfirborð þar sem hún fannst hefði getað leitt til smits.

Samkvæmt rannsókn sem birt hefur verið í New England Journal of Medicine, þar sem líftími veirunnar á mismunandi yfirborði er skoðað, getur kórónuveiran lifað í allt að fjórar klukkustundir á kopar, í allt að 24 klukkustundir á pappa og í allt að 72 klukkustundir á plasti og stáli.

Mikilvægt að þvo hendur eftir verslunarferð

Marcus segir þó vert að hafa í huga að virkni veirunnar minnki hratt á öllum þessum yfirborðum og að líkurnar á smiti ættu því að minnki eftir því sem líður á þó að veiran sé virk. Þá bendir Iwasaki á að það þurfi ákveðið magn virkra veiruagna til þess að valda smiti og það sé mismunandi eftir tegundum veira. Sumar séu mjög skæðar og allt niður í tíu veiruagnir geti valdið smiti á meðan hjá öðrum veirum þurfi milljónir veiruagna til.

Kórónuveiran lifir mislengi á mismunandi yfirborði. Mögulegt er að smitast …
Kórónuveiran lifir mislengi á mismunandi yfirborði. Mögulegt er að smitast við meðhöndlun matvara og er mikilvægt að þvo sér um hendur á eftir. AFP

Aðspurð hve margir séu að smitast við snertingu á hlutum samanborið við dropasmit frá smitaðri manneskju segir Marcus flest benda til þess að langflest smit berist með beinum hætti á milli manna. Þó sé afar mikilvægt að vera meðvituð um snertingu á algengum snertiflötum og handþvott.

Þá nefna Marcus og Iwasaki að mögulegt sé að smitast með því að snerta matvörur í matvöruverslunum og eins af matvörum sem sendar séu heim. Mikilvægt sé að ganga strax frá vörum sem koma inn á heimilið og jafnvel fjarlægja ytri umbúðir ef hægt er, og þvo sér vel um hendurnar á eftir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert