Siðferðilega óverjandi notkun á tækni

„Það eru flestir sammála um að í dag sé þetta …
„Það eru flestir sammála um að í dag sé þetta svið sem við eigum ekki að fara inn á. Sumir segja að það gerist kannski í framtíðinni en við vitum allt of lítið um þessa aðferð,“ segir Magnús Karl um breytingar á erfðum fósturvísis. Ljósmynd/Kristinn Ingvarsson

„Að taka fósturvísi og útsetja hann fyrir aðferðafræði sem við vitum ekki hvort er örugg, óháð siðferðilegum spurningum, er óverjandi tilraun á einstaklingi,“ segir Magnús Karl Magnússon, prófessor við læknadeild Háskóla Íslands.

CRISPR/Cas9-erfðatæknin er ný tækni sem gerir mönnum kleift að breyta erfðaefni dýra, þar með talið manna, að vild. Tæknin kemur frá bakteríum og er aðferð þeirra við að verjast árásum veira. 

„Kerfið kemur úr náttúrunni í allt öðrum tilgangi en við notum það,“ segir Magnús. „Þetta er í raun ónæmiskerfi bakteríunnar.“

Breytingar á erfðaefni voru gerðar áður en Crispr kom til sögunnar. „Það sem við höfðum og vorum talsvert góð í var að flytja stóra búta af genum úr einni lífveru yfir í aðra með svokölluðum genaferjum.“ Slík tækni er til dæmis notum við að erfðabreyta matvælum.

„Í stað þess að breyta erfðamenginu, einhverju gölluðu geni, þá værirðu að flytja inn nýtt afrit, ógallað afrit, í heilu lagi og setja það einhvers staðar inn í erfðamengið og vonast til að það geti starfað. Genaferjan er því mun ónákvæmari leið. Það virkar ágætlega en þú getur til dæmis ekki leiðrétt erfðamengi; breytt einum bókstaf í erfðamenginu og svo framvegis. Það má segja þetta byltingarkennda breytingu,“ segir Magnús Karl.

Hann segir Crispr ódýrari aðferð en genaferjuna að því leyti að hún sé ekki eins tímafrek. „Með eldri aðferðum tók það eitt til tvö ár bara að geta sett upp tilraun þannig að þú gætir fengið svarið út.“ Með Crispr tekur þetta nokkra mánuði auk þess sem breytingin er mun sérhæfðari.

Óumdeilt að nota gegn sjúkdómum

En hvernig nýtist Crispr okkur?

Í fyrsta lagi er hægt að breyta líkamsfrumum einstaklinga, t.d. til þess að lækna erfiða erfðasjúkdóma, og eru rannsóknir á mönnum þar sem slíkir möguleikar eru skoðaðir vel á veg komnar.

Í áratugi hafa verið gerðar rannsóknir á aðferðum við að breyta erfðamengi ákveðinna frumna fólks og lækna þannig sjúkdóma. Crispr færir vísindamönnum mikla möguleika á þessu sviði.

„Þessi nýja tækni er siðferðislega alveg óumdeild þegar um er að ræða breytingar á líkamsfrumum. Þarna erum við komin með aðferðafræði sem er markvissari og nákvæmari en gamla aðferðin. Það eina sem við erum að gera er að laga vefinn í sjúklingnum, við erum ekki að breyta erfðamengi hans í heild,“ segir Magnús. Í baráttu gegn sjúkdómum þar sem genalækningar hafa borið árangur á árum áður geti Crispr bætt um betur í náinni framtíð.

Lækning á krabbameini?

„Af því sem ég hef fylgst með eru tveir angar mjög spennandi,“ segir Magnús um téðar rannsóknir. Það er í sjúkdómnum sigðfrumublóðleysi annars vegar og krabbameini hins vegar.

Sigðfrumublóðleysi þekkist ekki mikið hér á landi en hefur svipaða dreifingu og malaríusýkillinn, þ.e. í Suðaustur-Asíu og Afríku. „Þetta er stökkbreyting í erfðamenginu sem veldur mjög illvígum blóðsjúkdómi þar sem rauðu blóðkornin eiga það til að kekkjast. Það hefur reynst erfitt að finna lækningu við þessum sjúkdómi.“

Lengi hafa menn hugsað sér að breyta erfðamengi blóðfruma til að lækna sjúkdóminn. „Núna eru menn mjög spenntir fyrir þessari Crispr-tækni.“

Spennandi framfarir eru einnig að eiga sér stað í baráttunni við krabbamein. „Það er ekki verið að erfðabreyta neinu í krabbameininu sjálfu heldur er verið að breyta ónæmiskerfi einstaklinganna svo að ónæmiskerfið fari að ráðast á krabbameinið.“

Fyrstu niðurstöður hafa verið birtar úr rannsóknum á þessu en óvíst er með framhaldið. „Það er allt of snemmt að segja til um en fyrstu niðurstöður voru lofandi,“ segir Magnús.

„Margir eru bjartsýnir á að Crispr verði hluti af lækningatólum til þess að leiðrétta gölluð gen, þá sérstaklega í vefjum þar sem við getum beitt genalækningum og í krabbameinsmeðferð.“ Þá er Crispr notað um allan heim til að skilja sjúkdóma fremur en að lækna þá í beinni merkingu orðsins, þar á meðal hér á landi. „Þetta er orðið eitt af grundvallartólunum í sameindalíffræði.“

„Óverjandi tilraun á einstaklingi“

Í öðru lagi er hægt að erfðabreyta kímfrumum sem gerir það að verkum, ólíkt því þegar líkamsfrumum er breytt, að erfðabreytingin erfist með komandi kynslóðum. Þannig væri hægt að breyta fósturvísi manns.

„Það eru flestir sammála um að í dag sé þetta svið sem við eigum ekki að fara inn á. Sumir segja að það gerist kannski í framtíðinni en við vitum allt of lítið um þessa aðferð svo það sé siðfræðilega verjandi að breyta erfðamengi sem flyst á milli kynslóða,“ segir Magnús.

„Að taka fósturvísi og útsetja hann fyrir aðferðafræði sem við vitum ekki hvort er örugg, óháð siðferðilegum spurningum, er óverjandi tilraun á einstaklingi því við vitum allt of lítið um langtímaáhrifin.“

Magnús segir að erfitt verði að sýna fram á öryggi erfðabreytinga af þessu tagi. „Við getum notað tilraunadýr en hvort við munum geta yfirfært þá þekkingu yfir á mannfólk er ekki ljóst.“

Við þessar aðstæður sé tiltölulega einföld siðferðisleg spurning hvort eigi að nota tæknina, að sögn Magnúsar. Verði hins vegar búið að ganga úr skugga um öryggi þess flækist málið. Eigum við þá að gera það? „Ég einfaldlega veit það ekki.“

Magnús segir ekki siðferðilega rétt að nota Crispr til að bæta einstaka eðliseiginleika okkar, fyrir utan hve flókið það yrði. „Við erum að læra að erfðafræði flókinna hluta eins og hæðar, gáfna, vöðvastyrks og ýmissa þátta sem menn geta hugsað sér að breyta er það flókin að í flestum tilfellum ræðst þessi eiginleiki af hundruðum mismunandi arfbreytileika. Það er hægt að leiðrétta arfbreytileika sem veldur því að þú sért með einhvern stórkostlegan galla,“ segir hann en efling eðliseiginleika mannsins væri langtum flóknari.

„Við höfum tækni í dag þar sem hægt er að frjóvga nokkur egg og við getum valið þau egg þar sem hættulegar stökkbreytingar eru ekki til staðar.“ Slík tækni hefur verið notuð í nokkurn tíma og er mun minna umdeild en Crispr.

Nánar er rætt við Magnús og fjallað um CRISPR/Cas9-tæknina í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert