Mótefni við veirunni virðist dvína hratt

Bargestir í Soho í Lundúnum í september.
Bargestir í Soho í Lundúnum í september. AFP

Magn þeirra mótefna sem verja fólk fyrir kórónuveirunni dvínar nokkuð hratt eftir að veirusmit er liðið hjá.

Niðurstöður nýrrar rannsóknar við Imperial-háskólann í Bretlandi benda til þessa, en mótefni gegna lykilhlutverki í ónæmiskerfinu og hindra veiruna í að komast inn í frumur líkamans.

Rannsóknarhópurinn við háskólann komst að því að því fólki sem mældist með mótefni fækkaði um 26% á milli júní og september.

Bent er á að svo virðist sem ónæmi við veirunni sé hverfult og fólki sé hætt við að smitast oftar en einu sinni.

Dróst meira saman hjá fólki eldra en 65 ára

Við fyrstu mælingar, um mánaðamót júní og júlí, fundust mælanleg mótefni í um 60 af hverjum þúsund sem prófaðir voru í Bretlandi. 

Í síðustu prófunum sem gerðar voru, í september, fundust mótefni í aðeins 44 af hverjum þúsund.

„Ónæmi er á nokkuð hraðri undanleið, það eru aðeins þrír mánuður frá fyrstu prófunum og við erum þegar farin að sjá 26% samdrátt í mótefnum,“ segir prófessor Helen Ward, sem stóð ásamt öðrum að rannsókninni, í samtali við BBC.

Samdráttur í magni mótefna mældist meiri hjá fólki eldra en 65 ára, og einnig hjá þeim sem þurftu ekki að þola helstu einkenni sjúkdómsins Covid-19, sem veiran veldur.

Lyfjaglös sem geyma eiga bóluefnisframleiðslu AstraZeneca.
Lyfjaglös sem geyma eiga bóluefnisframleiðslu AstraZeneca. AFP

Til marks um dvínandi ónæmi

Óvíst er hvaða þýðingu þetta hefur. Bent er á í umfjöllun breska ríkisútvarpsins að aðrir hlutar ónæmiskerfisins, á borð við svokallaðar T-frumur, geti einnig leikið hlutverk við að vinna á veirunni.

Rannsóknarhópurinn varar þó við að magn mótefna í fólki gefi yfirleitt nokkuð sterkt til kynna hvort það sé varið fyrir veirusmiti.

Prófessorinn Wendy Barclay metur það svo, við mat á þeim gögnum sem liggja fyrir, að dvínandi magn mótefna sé til marks um dvínandi ónæmi.

Önnur sýking verði vonandi mildari

Áður en þessi faraldur hóf för sína um heimsbyggðina þekkti mannkynið fjórar aðrar gerðir kórónuveira, sem sýkja okkur oft á lífsleiðinni. Þær valda hefðbundnum einkennum kvefs og geta smitað okkur með sex til tólf mánaða millibili.

Enn sem komið er hafa afar fá tilfelli fengist staðfest, þar sem fólk hefur sýkst tvisvar af kórónuveirunni. Rannsakendurnir vara hins vegar við því að það gæti verið vegna þess að svo skammt sé frá því fyrsta bylgja faraldursins náði hámarki.

Vonast er til að önnur sýkingin reynist mildari en sú fyrri, jafnvel þótt ónæmi viðkomandi hafi minnkað í millitíðinni, þar sem líkaminn á að hafa svokallað „ónæmisminni“ frá fyrstu viðureigninni við veiruna og kunna þannig að berjast á móti.

Fólk á ferli í Manaus í Brasilíu í síðasta mánuði. …
Fólk á ferli í Manaus í Brasilíu í síðasta mánuði. Faraldurinn hefur fellt fjölda fólks í landinu. AFP

Bóluefni áfram okkar besta von

Þrátt fyrir þessi tíðindi er ekki gert lítið úr mikilvægi þess að bóluefni komi fram á sjónarsviðið.

Prófessorinn Paul Elliott, sem stýrir REACT-2, þ.e. mótefnamælingu breskra stjórnvalda, segir að viðbragð líkamans við bóluefni kunni að verða öðruvísi. Þó sé mögulegt að einhverjir muni þurfa fleiri bólusetningar eftir þá fyrstu, til að halda ónæminu við.

Á vísindavef Háskóla Íslands segir enda að bólusetningar séu gjarnan hannaðar á þann veg að þær geti myndað sterkara og endingarbetra ónæmissvar miðað við náttúrulega sýkingu.

„Þannig er bóluefni áfram okkar besta von um að koma öllu aftur í samt horf og geta kvatt sjúkdóminn COVID-19 í bili,“ skrifaði Jón Magnús Jóhannesson, deildarlæknir á Landspítalanum, í síðasta mánuði.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert