Væntanlega vægari en smitast greiðar

Kórónuveiran.
Kórónuveiran. AFP

Líklegast er að kórónuveiran, SARS-CoV-2, muni þróast í átt að vægari gerð sem smitast greiðar en núverandi afbrigði segir í svari Arnars Pálssonar, erfðafræðings og prófessors í lífupplýsingafræði við Háskóla Íslands á Vísindavefnum, við spurningunni um þróun veirunnar sem veldur Covid-19.

Vísbendingar eru um að afbrigði veirunnar sem greindist fyrst í Bretlandi smitist einmitt greiðar og mögulega einnig annað afbrigði frá Suður-Afríku segir Arnar jafnframt í svari sínu.

„Ástæðan fyrir því að breytingar í átt að verri einkennum eru ólíklegar, er sú að sjaldgæft er að það sé veirum í hag að drepa hýslana (okkur) hraðar og betur. Ef hýsill veikist hratt og deyr minnkar það möguleika veirunnar á að berast áfram. Slíkt er ekki ákjósanlegt og því þróast fáar veirur í þá átt. Sennilegast er að þær þróist í þá átt að smitast betur, og að alvarleiki einkenna dvíni þegar frá dregur,“ segir Arnar. 

Hann segir að aukin fjölgunargeta eða smithæfni séu nógu alvarleg einkenni í sjálfu sér, því þótt dánartíðni sé svipuð ná slíkar gerðir að sýkja fleiri einstaklinga og mögulega smjúga í gegnum sóttvarnir sem virkuðu á upprunalega afbrigðið. „Óskandi er að mannkyninu takist að útrýma veirunni sem veldur COVID-19 með samhæfðu bólusetningarátaki um veröld alla eins og gert var fyrir veiruna sem olli stóru bólu,“ segir hann að lokum í svari sínu en það er hægt að lesa í heild hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert