Framfaraskref á heimsvísu

Niðursetning háhitadjúpdælu undirbúin.
Niðursetning háhitadjúpdælu undirbúin. Ljósmynd/Ægir Lúðvíksson

Undanfarna mánuði hefur notkun háhitadjúpdælu í hitaveituborholu verið prófuð í Hveragerði. Er það í fyrsta skipti í heiminum sem slík dæla er notuð í svo heitum jarðhitavökva en búnaðurinn hefur verið þróaður og notaður í olíugeiranum. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Veitum. 

„Hingað til hefur jarðhitavatni að 130°C verið dælt með hefðbundnum dælubúnaði hér á landi og erlendis þekkist að dælt sé vatni sem er allt að 160°C heitt. Með háhitadælunni munu Veitur nýta búnaðinn í enn heitara vatni eða allt að 180°C. Dælan, sem er staðsett í borholu hitaveitunnar í Hveragarðinum, hefur reynst vonum framar síðan hún var sett niður í októbermánuði,“ segir í tilkynningunni. 

Vinna við borholuna í Hveragarðinum.
Vinna við borholuna í Hveragarðinum. Ljósmynd/Ægir Lúðvíksson

Segir þá í tilkynningunni að þrýstingur hafi verið fallandi í jarðhitakerfinu í Hveragerði og hefur það reynst krefjandi verkefni að tryggja nægt heitt vatn fyrir hitaveituna. Þó sé vitað að mikill hiti sé á svæðinu en ekki hefur verið hægt að nýta hann enda skemmist hefðbundinn dælubúnaður í slíkum aðstæðum. 

Stórt framfaraskref í nýtingu jarðvarma 

Með háhitadjúpdælunni geta Veitur rekið borholur hitaveitu án þess að láta þær blása gufu. Það er mikill kostur að sögn Veitna þar sem tvær holur af þremur, sem eru í notkun í Hveragerði, eru staðsettar í miðri byggð. 

Afkastageta borholunnar í Hveragarðinum eykst með nýju dælunni og mun þannig bæta rekstraröryggi Hitaveitunnar. Auk þess verður betur hægt að stýra magni heits vatns sem er tekið úr holunni og segir þá í tilkynningunni að enn betri nýting verði „á þeirri dýrmætu auðlind sem heita vatnið er.“ 

Að lokum segir í tilkynningunni: „Notkun háhitadjúpdælu í hitaveitu er þróunarverkefni enn sem komið er. Reynist búnaðurinn áfram vel er um að ræða mikið framfaraskref í nýtingu jarðvarma, ekki bara hér á landi heldur á heimsvísu.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert