Ósamþykkt notkun sníkjudýralyfs við Covid aukist

Frá innlögn Covid-19 sjúklings á sjúkrahús í Bandaríkjunum.
Frá innlögn Covid-19 sjúklings á sjúkrahús í Bandaríkjunum. AFP

Notkun sníkjudýralyfsins ivermectin gegn Covid-19 hefur aukist verulega á síðustu mánuðum, gjarnan án þess að lyfið hafi verið samþykkt til slíkrar notkunar. Lyfið hefur fengið aukna athygli nýlega sem möguleg meðferð gegn Covid-19. Ekki er hægt að staðfesta gagnsemi lyfsins með vissu fyrr en stærri og ítarlegri rannsóknir á því hafa farið fram. 

Þetta kemur fram í umfjöllun á Vísindavefnum en þar svarar Jón Magnús Jóhannesson deildarlæknir á Landspítalanum spurningunni „gæti gamalt lyf við sníkjudýrum gagnast gegn COVID-19?“

Ivermectin er flókið sýkingarlyf með margþætta gagnsemi. Það er notað um allan heim gegn margvíslegum ormasýkingum en einnig gegn öðrum sníkjudýrum. Notkunin einskorðast ekki við menn heldur er lyfið einnig gefið öðrum dýrum, til að mynda hundum. Aukaverkanir eru að jafnaði sáralitlar.

Notkun ivermectin á töfluformi hérlendis hefur í ákveðnum tilfellum verið samþykkt síðastliðin ár eftir umsókn læknis þar um, samkvæmt vefsíðu Lyfjastofnunar. Það hefur ekki verið samþykkt til meðferðar eða forvarnar gegn Covid-19.

Ekki ætti að taka lyf, hvorki þetta né önnur, sem forvörn eða til meðferðar við sjúkdómnum, nema læknir hafi ávísað því og uppruni þess sé í samræmi við lög og reglur,“ segir enn fremur á vefsíðu Lyfjastofnunar. Lyfinu geta fylgt ýmsar aukaverkanir. 

Lítið um lyfjameðferðir gegn Covid-19

Jón Magnús segir mikilvægt að hafa í huga að þrátt fyrir hundruð rannsókna um allan heim hefur fátt reynst gagnast sem lyfjameðferð gegn Covid-19. Barkasterameðferð, til dæmis með dexametasón, getur gagnast hjá vissum hópi Covid-sjúklinga en aðrar meðferðir hafa, í besta falli, mögulega jákvæða verkun í ákveðnum undirhópum við vissar aðstæður.

Þó rannsóknir um ivermectin og COVID-19 séu gjarnan settar fram á þann veg að árangur sé ótvíræður er það einfaldlega ekki rétt – fjöldi annmarka er til staðar á þeim rannsóknum sem liggja fyrir og þörf er á stærri og ítarlegri rannsóknum áður en hægt er að staðfesta með vissu árangur ivermectin gegn COVID-19,“ segir í svari Jóns sem bendir á ítarlegt svar um rannsóknir gagnsemi ivermectins í baráttunni við Covid. 

Ýmsir heilbrigðisstarfsmenn víða um heim hafa hvatt til notkunar á ivermectin til varnar og meðferðar gegn COVID-19, með vísun í fyrrnefndar rannsóknir – hins vegar skortir gagnrýni á aðferðafræði rannsóknanna, forsendur þeirra og hversu erfitt er að túlka niðurstöðurnar sem koma frá þeim. Stundum er vísað í rannsóknir til stuðnings sem raunverulega sýna ekki marktækan mun milli hópa eða eru of litlar,“ segir Jón Magnús um fyrrnefndar rannsóknir.

Heilbrigðisstarfsmenn í hlífðarfatnaði vegna Covid-19.
Heilbrigðisstarfsmenn í hlífðarfatnaði vegna Covid-19. AFP

 

Hafa ekki leiðrétt fyrir líkur á sníkjudýrasýkingu

Þá bendir hann á að engin rannsókn á lyfinu til þessa hafi leiðrétt fyrir líkur á fyrirliggjandi sníkjudýrasýkingu. Það á sérstaklega við um sýkingu með þráðorminum Strongyloides stercoralis, sem finnst víða um heim og er verulega vangreindur. 

Ormurinn sýkir meltingarveg og veldur gjarnan langvinnum sýkingum til margra ára. Þó hann sé oftast staðsettur einungis innan meltingarvegar til lengri tíma getur ormurinn valdið kerfisbundnum, alvarlegum sýkingum, og þá sérstaklega í ónæmisbældum einstaklingum; þá verður ónæmisbælingin til þess að langvinn, einkennalítil sýking breytist yfir í mun hættulegra ástand,“ segir í svari Jóns Magnúsar. 

Frá Landspítala.
Frá Landspítala. Landspítali/Þorkell Þorkelsson

Enn talsverð óvissa til staðar

Þar kemur fram að algengasta orsök ónæmisbælingar sem getur hleypt af stað kerfisbundinni alvarlegri sýkingu með Strongyloides stercoralis er meðferð með háum skömmtum af barksterum, sem er meðal annars liður í meðferð gegn miðlungsalvarlegum og alvarlegum tilfellum COVID-19.

„Slíkar kerfisbundnar sýkingar geta valdið lungnabólgum, rofi á meltingarvegi, sýklasótt (e. sepsis) og heilahimnubólgu, með dánarhlutfall sem getur náð upp í 90%. Það getur verið afar erfitt að greina sýkingar af völdum Strongyloides stercoralis, sem er ein orsök fyrir vangreiningu. Kjörmeðferð gegn Strongyloides stercoralis er, merkilegt nokk, stakur skammtur af ivermectin. Þannig ættu allar rannsóknir sem meta virkni ivermectin gegn COVID-19 (í löndum þar sem þessi þráðormur er landlægur) að huga að þessum möguleika áður en hægt er að segja til um gagnsemi ivermectin gegn COVID-19 sérstaklega. Hins vegar bendir þetta til þess að notkun ivermectin væri réttlætanleg ef grunur er um undirliggjandi sýkingu með Strongyloides stercoralis, sérstaklega ef verið er að hefja meðferð með barksterum,“ segir í svari Jóns Magnúsar.

Að lokum tekur Jón Magnús fram að áfram sé talsverð óvissa til staðar í umræðunni um ivermectin og Covid-19.

„Sár skortur er á árangursríkri, öruggri meðferð gegn COVID-19 – ef ivermectin uppfyllti þau skilyrði væri það ómetanleg viðbót í viðbrögðum okkar við þessum heimsfaraldri samhliða bólusetningum og samfélagslegum inngripum. Því miður skortir okkur gögnin til að segja til um slíkt en vonandi verður ráðin bót á því á næstu mánuðum.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert