Persónuupplýsingum 31.000 Íslendinga lekið

Gögnin eru í það minnsta tveggja ára gömul, en Facebook …
Gögnin eru í það minnsta tveggja ára gömul, en Facebook segir að öryggisgallinn sem misnotaður var hafi verið lagaður í ágúst 2019. AFP

Persónuupplýsingum ríflega 500 milljóna notenda samfélagsmiðilsins Facebook hefur verið lekið á netið. Gögnin innihalda upplýsingar um notendur í 106 löndum, þar af ríflega 31.000 notendur frá Íslandi.

Í gögnunum er að finna fullt nafn, símanúmer, staðsetningarupplýsingar sem deilt hefur verið með Facebook, sambandsupplýsingar, afmælisdaga og netföng. Lykilorð er ekki að finna í gögnunum.

Nýttu öryggisgalla

Samkvæmt upplýsingum frá Facebook eru gögnin nokkurra ára gömul en til að safna þeim nýttu þrjótarnir sér öryggisgalla sem fyrirtækið segist hafa lagað árið 2019. Öryggissérfræðingar óttast að hin stolnu gögn geti nýst netglæpamönnum til að villa á sér heimildir, að sögn Alon Gal hjá netöryggisfyrirtækinu Hudson Rock sem kom upp um gagnalekann.

„Gagnabanki af þessari stærð með persónuupplýsingum á borð við símanúmer fjölda facebooknotenda gæti hæglega nýst óprúttnum aðilum,“ segir Gal í samtali við Business Insider.

Geti varað notendur við

Fyrst var greint frá lekanum í janúar og þá sagt frá því að hægt væri að kaupa aðgang að honum gegnum sjálfvirkan þjark á samskiptamiðlinum Telegram. Nú hefur gagnabankanum hins vegar verið deilt á netinu.

Gal segir ekki mikið sem Facebook geti gert úr þessu, fyrst gögnin eru þegar orðin aðgengileg, en samfélagsmiðillinn geti í það minnsta varað notendur við svo þeir geti verið á varðbergi gagnvart hugsanlegum netsvikum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert