Solid Clouds kynnir nýjan leik

Starborne: Frontiers er annar leikurinn í Starborne-seríunni.
Starborne: Frontiers er annar leikurinn í Starborne-seríunni. Ljósmynd/Solid Clouds

Íslenski tölvuleikjaframleiðandinn Solid Clouds birtir í dag nýja kitlu úr væntanlegum tölvuleik, sem ber heitið Starborne: Frontiers og kemur út um mitt næsta ár.

Frontiers er hannaður fyrir snjallsíma og verður einnig spilanlegur á far- og borðtölvu, en nýi leikurinn er viðbót við Starborne heiminn sem Solid Clouds hefur unnið að því að skapa síðustu ár.

Hundruð þúsunda spilara

Þegar hefur félagið gefið út leikinn Starborne: Sovereign Space, sem yfir 400 þúsund spilarar hafa spilað. Frontiers fer með þennan stóra leikjaheim í nýja átt og kynnir spilarann fyrir fjölda ólíkra fylkinga sem takast á í víðfeðmum framtíðarheimi, eins og segir í fréttatilkynningu frá Solid Clouds.

Fyrri leikur Solid Clouds er fjölspilunarleikur með djúpri herkænsku sem er spilaður á löngum tíma í senn, á meðan Starborne: Frontiers er aðgengilegur jafnt fyrir fólk sem vill spila einsamalt eða með öðrum, með „skemmtilega sögu og grípandi leikkerfi,“ segir í tilkynningunni.

„Mér finnst mjög spennandi að geta farið að segja dýpri sögur í leikjunum okkar,“ er haft eftir Stefáni Gunnarssyni, framkvæmdastjóra Solid Clouds í tilkynningunni.

„Við erum búin að skapa stóran heim og tæknigrunn sem gerir okkur kleift að skapa íburðarmeiri sögur og meiri hlutverkaleik, og það er mjög gefandi.“ 

Í Starborne: Frontiers fara spilarar í hlutverk foringja yfir geimflota sem safnar sér geimskipum og berst við óvini úr ýmsum fylkingum. Sagan er spennandi og full af óvæntum uppákomum og persónugalleríið er litríkt.

Geimógnir, herkænska og valdabarátta

Leikmenn geta notið þess að sjá skipaflotann sinn stækka, betrumbæta geimskipin og bæta við sig nýjum aðferðum til að sigrast á andstæðingum sínum. Í leiknum gefst kostur á að kanna himingeiminn í Starborne heiminum, berjast við aðra spilara, ná yfirráðum yfir nýjum svæðum og berjast við ólíkar óvinafylkingar til að ná lengra og öðlast meiri völd.

Herkænska skiptir sköpum í Starborne: Frontiers, en ekki síður að byggja upp öflugan geimflota til að geta mætt stærstu ógnum himinhvolfanna.

Ókannaðar slóðir himingeimsins bíða, og nú er hægt að berja augum brot af því sem Solid Clouds hyggst bera á borð í Starborne: Frontiers. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert