Síðasta máltíð Tollund-mannsins

Tollund-maðurinn.
Tollund-maðurinn.

Hin svokölluðu keldulík eru á meðal dularfyllstu fórnalamba morða í sögunni. Keldulíkin hafa varðveist í mórafenjum í Norður-Evrópu og á Bretlandi í gegnum árþúsund, svo vel að greina má svipbrigði á líkunum og ráða hvernig fólkið var myrt fyrir rúmum tvö þúsund árum. 

Tollund-maðurinn er eflaust best þekkta keldulíkið. Það uppgötvaðist árið 1950 í norðurhluta Danmerkur. Járnaldarmaðurinn var enn með ullarhúfu í heilu lagi og leðursnara sem var notuð til að kyrkja hann í kringum 350 fyrir Krist var enn í heilu lagi um háls hans. 

Þrátt fyrir að þær aðferðir sem voru notaðar við morðin á keldufólkinu sem oftast var kyrkt, skorið á háls eða því veitt þung högg á höfuðið, séu vel þekktar er ekki mikið vitað um atburðarásina sem leiddi að morðunum. Var um handahófskennd manndráp að ræða eða voru morðin viðhafnarsiður? Og ef um var að ræða einhvers konar helgiathafnir; hvernig voru fórnalömbin valin og var þeim gefinn ákveðinn matur eða jafnvel vímugjafi til að seðja óttann við dauðann?

Í nýrri rannsókn sem birtist í Antiquity, tímariti fornfræðideildar Cambridge-háskóla, voru matarleifar sem varðveist höfðu í maga Tollund-mannsins rannsakaðar. Síðasta máltíð Tollund-mannsins þykir helst merkileg fyrir það hvað hún er ómerkileg. 

Brenndur bygggrautur og fiskur 

Þegar Tollund-maðurinn uppgötvaðist fyrir 70 árum skoðuðu rannsakendur vel varðveittan maga hans og meltingarveg og komust að því að maðurinn, sem var á miðjum aldri, hefði snætt síðustu máltíð sína um 12 til 24 klukkustundum fyrir andlát sitt. 

Tollund-maðurinn.
Tollund-maðurinn. Ljósmynd/National Museet

Nú hefur teymi vísindamanna, undir stjórn Ninu Nielsen, sem er yfir rannsóknadeild Silkeborgar-safnsins í Danmörku, sem er heimili Tollund-mannsins í dag, endurskoðað maga-innihald líksins með nýrri tækni. Við rannsóknina, sem er ítarlegasta rannsókn á maga-innihaldi keldulíks sem gerð hefur verið, fundust leifar af plöntutegundum, frjóduft og aðrar örsmáar agnir sem varpa ljósi á síðustu máltíð Tollund-mannsins. 

Niðurstaða rannsóknarinnar er að síðasta máltíð Tollund-mannsins samanstóð af graut úr byggkornum, hör, illgresisfræjum og fiski. Máltíðin var þannig nokkuð hefðbundin fyrir keldulík miðað við rannsóknir sem áður höfðu verði gerðar á 12 evrópskum keldulíkum frá járnöldinni sem höfðu borðað kornmiklar máltíðir, oft með berjum eða kjöti. Ómögulegt er að segja til um það hvort síðustu kvöldmáltíðir keldufólksins töldust hefðbundnar á sínum tíma þar sem flestar heimildir um mataræði járnaldarfólks koma frá rannsóknum á keldulíkum. 

Teymi Nielsen tókst einnig að finna út hvernig síðasta máltíð Tollund-mannsins var útbúin. Öragnir af brenndum byggfræjum benda til þess að grauturinn hafi verið eldaður í leirpotti, líklegast aðeins of lengi. 

„Þú færð þá mynd að þetta hafi verið hefðbundið mataræði, en þessi rannsókn getur í raun sagt þér hvað hann borðið daginn sem hann dó. Það er það sem gerir þetta áhugavert – þú kemst svo nærri atburðarrásinni,“ segir Nielsen í viðtali við National Geographic. 

Mistilteinn og ofskynjunarsveppir 

Rannsóknarteymi Nielsen skoðaði einnig hvort Tollund-maðurinn hefði innbyrt eitthvað með tiltekna eiginleika, á borð við ofskynjunarvalda, vímugjafa eða verkjaminnkandi plöntur, en slíkt gæti styrkt kenningar um að morðið á manninum hefði verið hluti af helgiathöfn. Við fyrri rannsóknir á öðru þekktu keldulíki, Lindow-manninum sem var líklega fórnað á norðvesturhluta Englands á fyrstu öld þessa tímatals, fundust leifar af mistilteini í meltingarveginum. Plantan var líklegast notuð fyrir verkjastillandi eiginleika, en magnið sem fannst í Lindow-manninum var ekki nægilegt til að draga einhverjar ályktanir um morðið á honum. 

Tollund-maðurinn er til sýnis á Silkeborg-safninu.
Tollund-maðurinn er til sýnis á Silkeborg-safninu. Silkeborg-safnið

Þá fundust grasdrjólasveppaleifar í maga Grauballe-mannsins, sem var myrtur í Danmörku á svipuðum tíma og Tollund-maðurinn. Grasdrjólasveppir geta valdið gríðarlegum ofskynjunaráhrifum, en magn leifanna í maga Grauballe-mannsins var, líkt og með Lindow-manninn, of lítið til að gefa skýrari mynd af morðinu. 

Engar leifar af ofskynjunar- eða vímugefandi plöntum fundust í maga Tollund-mannsins. „Við höfum engin sönnunargögn úr keldulíkum sem gefa til kynna að þeim hafi verið gefin einhvers konar lyf,“ segir Nielsen. 

Gömul lík, nýjar rannsóknir 

Samkvæmt rannsókn Nielsen geta líkindi síðustu máltíða keldulíkanna bent til þess að morðin hafi verið hluti af helgiathöfnum. Í fjölmörgum keldulíkum hafa fundist illgresisfræ og annars konar illgresi, þá helst lóblaðka.

„Síðustu máltíðirnar samanstanda ekki aðeins af korni eða vellingi heldur einnig, í tilfelli Tollund-mannsins, fjölmörgum tegundum fræja og illgresis,“ segir Miranda Aldhouse-Green, prófessor emeritus við Cardiff-háskóla og höfundur bókarinnar Keldulík uppgötvuð: Að leysa forna ráðgátu Evrópu. „Það var mikilvægt að máltíðin innihéldi afar fjölbreyttar tegundir umhverfisleifa, eins og það hafi í sjálfu sér verið mikilvægt,“ segir Aldhouse-Green. 

Henry Chapman, prófessor í fornleifafræði við Háskólann í Birmingham, telur að landslag evrópska mórafenja geti gefið mikið til kynna um ástæður þess að fólki var fórnað á þessu tímabili. 

Á árunum áður en Lindow-maðurinn var myrtur á Englandi, urðu mórafenin þar sem hann var síðan grafinn sífellt blautari, sem gæti hafi gefið til kynna versnandi loftslag og eyðileggingu ræktarlands. 

„Fólk hefur gefið til kynna að mannslífum hafi verið fórnað vegna þess að umhverfið var að breytast,“ segir Chapman. 

Þrátt fyrir vel varðveitt keldulíkin hafa vísindamenn farið varlega í að draga af þeim ályktanir um hversdagslíf Evrópubúa á járnöld. 

„Keldulík eru óvenjuleg. Það er bæði gæfa þeirra og bölvun,“ segir Chapman. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert