Gervitungladrónar taka strætó milli staða

Ein af þeim milljónum loftmynda sem Svarmi hefur aflað.
Ein af þeim milljónum loftmynda sem Svarmi hefur aflað. Ljósmynd/Aðsend

Gagnafyrirtækið Svarmi hefur undanfarin ár unnið að þróun tækni sem snýst um að skanna umhverfi með drónum og gervitunglum. Þannig nær fyrirtækið að afla gagna sem eru nákvæmari og aðgengilegri en þau sem nást eingöngu með hefðbundnum gervitunglum.

Fyrirtækið vinnur nú að því að stækka þjónustusvæði drónanna í samstarfi við Strætó og fjölda evrópskra fyrirtækja. Drónarnir munu geta notast við strætisvagna til þess að komast á milli staða og hlaðast á meðan.

Sjálfbærni og grænar lausnir

„Tilgangurinn í þessu verkefni eru snjallar orkulausnir og snýst um að stækka þjónustusvæði dróna, meðal annars með því að nota samgönguinnviði til þess að flytja þá milli staða,“ segir Kolbeinn Ísak Hilmarsson, framkvæmdastjóri Svarma í samtali við mbl.is en fyrirtækið hélt á dögunum erindi á ráðstefnunni Swiss Green Economy Symposium, í Winterthur-borg í Sviss.

Þar komu fyrirtæki, háskólar og opinberir aðilar saman til að ræða sjálfbærni og grænar lausnir. Erindi Svarma fjallaði meðal annars um hvernig drónar og svipuð tækni geti stuðlað að sjálfbærni.

„Allt þetta er í raun hluti af vegferð okkar til þess að skala upp aukna vöktun umhverfis,“ segir Kolbeinn. Fyrirtæki, stofnanir og ríki geti þannig vaktað umhverfi sitt með drónatækninni og gervigreind.

Kolbeinn kynnir hvernig drónar og svipuð tækni geti stuðlað að …
Kolbeinn kynnir hvernig drónar og svipuð tækni geti stuðlað að sjálfbærni. Ljósmynd/Aðsend

Háupplausnar þrívíddarlíkön

Svarmi sérhæfir sig í gagnaþjónustu (e. Data as a Service) og nýtir mismunandi skynjara, þar á meðal LiDAR- og myndmælingartækni fyrir háupplausnar þrívíddarlíkön, hitaskanna til kortlagningu hitamynsturs mannvirkja og jarðvegs, auk fjölsviðsmyndaskynjara (e. multispectral) sem má nota til að mæla ásýnd gróðurs.

Með því geti þau í auknum mæli aflað gagna sjálf og búið til tölfræði og gagnaafurðir úr þessum gagnasöfnum.

Aðspurður hvort þau muni koma til með að selja þau gögn áfram eða nota þau sjálf segir Kolbeinn að fyrirtæki og stofnanir geti keypt annars vegar gögn og hins vegar upplýsingar unnar upp úr gögnunum. „Þetta getur verið breyting á heildarlífmassa í skógi, heilsa jarðvegs eða frávik í vatnsaflsstíflu og svo fram eftir götunum.“

Nýjasta gagnaafurð félagsins nefnist GreenIndX, sem ber saman hlutfall gróðurs í sveitarfélögum og kjördæmum landsins. Til að sýna fólki hvernig hún virkar framkvæmdu Svarmi greiningu á öllu Íslandi og settu niðurstöður í skýrslu sem nálgast má hér.

GreenIndX magnfærir hlutfall gróðurs á skilgreindu landsvæði út frá gervitungla …
GreenIndX magnfærir hlutfall gróðurs á skilgreindu landsvæði út frá gervitungla og drónagögnum. Ljósmynd/Aðsend

„Fólk vill fá betri gögn, í hærri upplausn og oftar“

Þá sé mikil hagkvæmni í því þar sem margir aðilar geta notað mismunandi upplýsingar úr sama gagnasafni. „Það hefur enginn svo við vitum til í heiminum farið þessa leið að vera með strategíska öflun gagna á stórum skala af þessari upplausn.“

Í rauninni megi líkja viðskiptamódeli Svarma við gervitunglafyrirtækin sem afla gagna með gervitunglum utan úr geimnum. Drónatæknin veitir aftur á móti betri upplausn og meira aðgengi en frá gervitunglum.

Er það ekki að færast í aukana?

„Jú það er að færast talsvert í aukana. Eftirspurnin eftir gögnum er að verða meiri, fólk vill fá betri gögn, í hærri upplausn og oftar. Það er það sem við erum að keyra áfram: Að svara þeirri eftirspurn sem er eftir gögnum og ekki bara gögnum heldur líka upplýsingum um það sem er að gerast og gera þetta aðgengilegt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert