Rafhleðslustöðvar verði merktar

Samgöngufélagið hvetur til þess að þjónustumerki sem vísar á staði þar sem fá má rafhleðslu fyrir ökutæki verði innleitt í reglugerð um umferðarmerki og notkun þeirra. Vegagerðin lét teikna upp slík merki fyrir allmörgum árum og lagði til að þau yrðu tekið upp í reglugerð. Ekki hefur orðið af því, að því er fyrirsvarsmaður Samgöngufélagsins segir.

Samgöngufélagið sendi nýlega samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu hvatningu um að rafhleðslumerkin verði formlega staðfest í reglugerð og ítrekaði með því sams konar erindi sem sent var fyrir þremur árum. Svar hefur ekki borist.

Jónas Guðmundsson, fyrirsvarsmaður Samgöngufélagsins, segir að það sé við hæfi nú þegar rafknúnum ökutækjum fer fjölgandi hérlendis og loftslagsmál í brennidepli að innleiða þessi merki.

Tillögur Vegagerðarinnar voru um tvenns konar merki. Annars vegar yrði vísað á stað þar sem hægt er að komast í rafmagn til að hlaða bíla og hins vegar vísað á hraðhleðslustöð.

Félagið hefur staðið að uppsetningu nokkurra skilta með rafhleðslumerki á Vestfjörðum og víðar, þótt merkið sé ekki viðurkennt af stjórnvöldum.

Ýmis önnur not

Bílatölvur nýrra rafbíla sýna í mælaborði hvar næsta hleðslustöð er. Jónas vekur athygli á að slíkar upplýsingar eru ekki í eldri rafbílum. Hann bendir einnig á að hægt er að nota merkið á annan hátt, til dæmis á skilti þar sem mörg þjónustumerki séu sett upp saman til að vísa á hvaða þjónustu sé hægt að fá á ákveðnum stað, til dæmis við gististaði. Óeðlilegt sé að vera ekki með merki sem vísar á hleðslustöð, ef hún er á staðnum. Þá sé hægt að nota merki í bílastæði við rafhleðslustöðvar og fleira komi til greina. helgi@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert