Þrír brautryðjendur verðlaunaðir

Alain Aspect, John Clauser og Anton Zeilinger voru heiðraðir í …
Alain Aspect, John Clauser og Anton Zeilinger voru heiðraðir í dag fyrir sín afrek á sviði eðlisfræði. Fyrir neðan má sjá þau sem eiga sæti í Nóbelsnefndinni, eða þau Evu Olsson, Hans Ellegren og Thors Hans Hansson. AFP

Þrír vísindamenn hafa hlotið Nóbelsverðlaun í eðlisfræði fyrir uppgötvanir sínar á sviði skammtafræði, en þær hafa rutt brautina fyrir þróun skammtatölva, netkerfa og dulkóðaðra fjarskipta. 

Verðlaunahafarnir eru þeir Alain Aspect frá Frakklandi, John Clauser frá Bandaríkjunum og Anton Zeilinger sem er Austurríkismaður. Þeir voru heiðraðir fyrir tilraunir sínar með flæktar ljóseindir og frumkvöðlastarf á sviði skammtafræðinnar. Skammtafræði eða skammtaaflfræði er sú grein innan kennilegrar eðlisfræði sem fjallar um eðli öreinda og rafsegulbylgja.

Vísindamennirnir unnu allir að rannsóknum sem mörkuðu tímamót með því að sýna fram á hvernig tvær öreindir hegði sér sem ein heild jafnvel þótt að þær séu aðskildar. Þessar uppgötvanir hafi rutt brautina þegar kemur að þróun nýrrar tækni sem byggist á vísindum skammtafræðinnar. 

Formaður Nóbelsnefndarinnar í eðlisfræði, Anders Irback, segir að það sé ljóst að ný tegund skammtafræðitækni hafi litið dagsins ljós.

Á vef Vísindavefs Háskóla Íslands segir um skammtafræði:

„Skammtafræði er stærðfræðileg lýsing á hegðun smæstu hluta sem við þekkjum. Þetta eru hlutir eins og rafeindir, frumeindir eða jafnvel hinir örsmáu kvarkar sem mynda róteindir og nifteindir í kjarna frumeinda. Þessar agnir eru grundvallareiningar í byggingu nær alls efnis í hinum þekkta heimi og marga af eiginleikum lofttegunda, kristalla og jafnvel vökva er einungis hægt að útskýra með hjálp skammtafræðinnar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert