Innflytjendur læra íslensku í nýju íslensku appi

Bara tala er nýtt smáforrit sem býður upp á stafræna …
Bara tala er nýtt smáforrit sem býður upp á stafræna leikjavædda íslenskukennslu og er hannað fyrir vinnustaði. AFP

Nýtt smáforrit sem kennir innflytjendum á vinnumarkaðinum íslensku var kynnt í dag. Guðmundur Arnar Guðmundsson framkvæmdastjóri Akademias, segir forritið byltingarkennt fyrir íslenskan vinnumarkað að því leyti að vinnuveitendur geti sérsniðið námskeið fyrir starfsfólk sitt að atvinnugreininni. Þá geri forritið aðgengi innflytjenda að samfélaginu greiðari. 

Forritið, sem kynnt var í dag, heitir Bara tala og býður upp á stafræna leikjavædda íslenskukennslu. Það byggir á gervigreind og íslenskri máltækni. 

Geta vinnuveitendur sérsniðið námskeiðin fyrir starfsfólk sitt og lagað kennsluna að þeim orðaforða sem notaður er á vinnustaðnum. Þetta segir Guðmundur vera umbyltingu í tungumálakennslu fyrir innflytjendur.

Leikur að læra 

Það kannast eflaust margir við smáforrit á borð við duolingo sem bjóða upp á tungumálakennslu í leikjaformi. Bara tala, sem kennir íslensku, er svipað forrit en er þó sérstaklega miðað að innflytjendum á íslenskum vinnumarkaði.

Þá eru til önnur íslensk forrit sem kenna notendum sínum íslensku, svo sem vefnámskeiðið Icelandic Online sem nýverið varð aðgengilegt fyrir snjalltæki.

Sérsníða námskeið eftir atvinnugrein

Einungis vinnustaðir geta veitt aðgang að forritinu og er það hannað með innflytjendur í huga. Auk grunnámskeiða er því boðið upp á vinnusértengt efni fyrir fyrirtæki. Þetta kemur fram í samtali mbl.is við Guðmund Arnar Guðmundsson sem ásamt framkvæmdastjóra Bara tala, Jóni Gunnari Þórðarsyni, stendur að gerð forritsins.

Vinnuveitendur geta þannig tekið saman ákveðinn orðaforða fyrir starfsfólk sitt og aðlagað hann starfsumhverfinu. Guðmundur nefnir sem dæmi að sjávarútvegsfyrirtæki gætu safnað saman orðaforða sem tengist atvinnuveginum og sniðið námskeið út frá honum. „Þannig geta einstaklingar sem jafnvel eru hér einungis í skamman tíma lært þau orð sem tengjast vinnunni fljótt og örugglega,“ segir Guðmundur.

Tungumálið er lykillinn

Hann segir markmiðið vera að auka aðgengi innflytjenda að íslensku samfélagi. Tungumálið sé lykillinn að því og án tungumálakunnáttu í nýju landi eigi fólk á hættu að einangrast. „Það er mikið flæði af erlendu vinnuafli til Íslands og við viljum koma til móts við þá þróun.“

Forritið nýtir tækni gervigreindarinnar OpenAI og þá vinnu sem máltækniáætlun stjórnvalda hefur skilað. Þetta kemur fram í skriflegu svari Guðmundar við fyrirspurn mbl.is þess efnis.

Geta fylgst með framgangi starfsfólks

Þá vakti athygli blaðamanns að stjórnendur vinnustaða geta fylgst með framgangi nemenda í forritinu auk þess að þeir geta búið til keppnir og leiki í kringum lærdóminn. Þetta kemur fram í skriflegu svari Guðmundar við fyrirspurn mbl.is.

Spurður út í það hvaða áhrif þetta geti haft áhrif á stöðu starfsfólks innan vinnustaðarins og réttindi þeirra vísar Guðmundur spurningunni frá sér og leggur áherslu á að forritið eigi að nota af ábyrgð og skynsemi. Því sé fyrst og fremst ætlað að hvetja vinnustaði til að bjóða upp á sérsniðið tungumálanám og gera starfsfólki kleift að læra íslensku á vinnutíma. Hann segir vinnuveitendur geta nýtt gögnin til þess að hvetja starfsfólk áfram og veita þeim aukna aðstoð sem þurfa.

„Hugmyndin er að veita starfsfólkinu meira svigrúm, auðvelda því að sækja tungumálanám og hvetja það áfram. Námið verður í raun hluti af vinnunni og fólk getur sinnt því á vinnutíma í stað þess að þurfa að sækja það eitthvert annað að vinnudeginum loknum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert