Fínasta veiði í Hítará

Hítará við Langadrátt og hið fallega Fagraskógarfjall í baksýn áður …
Hítará við Langadrátt og hið fallega Fagraskógarfjall í baksýn áður en hið mikla berghlaup átti sér stað. svfr

Veiðin í Hítará er góð þessa dagana og virðist sem berghlaupið stóra sem féll úr Fagraskógarfjalli að morgni 7. júlí og fyllti farveg árinnar á rúmlega kílómetra kafla ofan við Kattarfoss hafi lítil áhrif haft á veiðina það sem af er sumri. Of snemmt er þó að segja til um endanleg áhrif til framtíðar.

Samkvæmt fréttum frá Stangaveiðifélagi Reykjavíkur lauk hópur erlendra veiðimanna veiðum síðastliðinn sunnudag með 52 laxa eftir þriggja daga veiði á sex stangir. Þegar þeir mættu til veiða var mikið vatn í ánni og hún skoluð, en þurrt var næstu daga á eftir. Lækkaði þá smám saman í ánni og hún hreinsaði sig nokkuð og óx veiðin i kjölfarið og menn fengu laxinn meira upp á yfirborðið og mikil viðbrögð á svokallað hitch og Sunray shadow.

Meirihluti veiðinnar er enn sem komið neðan þjóðvegsbrúar og virðist Brúarfoss vera talsverður farartálmi fyrir laxinn í þeim vatnavöxtum sem verið hafa það sem af er sumri. Mest veiðist á hefðbundnum veiðistöðum í kringum veiðihúsið og þar fyrir neðan en ekki er þess þó langt að bíða að fornfrægir veiðistaðir þar fyrir ofan eins og Grettisstiklur og Langidráttur fari að gefa vel.

Áhrif náttúruhamfaranna eru ekki að fullu komin fram en strax við berghlaupið myndaðist lón fyrir ofan stífluna og daginn eftir fór að renna úr því í nýjan farveg fram hjá skriðunni og rennur áin nú að einhverju leyti út í hliðarána Tálma sem rennur út í Hítará skammt fyrir ofan hinn fræga Langadrátt. Framtíðin leiðir í ljós hvað þeir laxar kjósa að gera sem ætluðu sér að leita til hrygningarstöðva ofar í Hítaránni sjálfri og hvort þeir muni ganga upp hinn nýja farveg í Tálma.

Svo heppilega vildi til að sumarið 2017 fór fram ítarleg rannsókn á ánni og lífríki hennar á vegum fiskifræðinga í tengslum við arðskrármat og mun niðurstaða þess hjálpa mikið við að meta áhrif þessara náttúruhamfara til lengri tíma.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Vatnsdalsá Erlendur veiðimaður 29. september 29.9.
101 cm Eystri-Rangá Grzegorz Loszewski 27. september 27.9.
105 cm Hvítá við Iðu Katrín Tanja Davíðsdóttir 24. september 24.9.
101 cm Víðidalsá Jón Eðvald Halldórsson 22. september 22.9.
107 cm Grímsá Jón Jónsson 22. september 22.9.
101 cm Miðfjarðará Agnar Sigurjónsson 22. september 22.9.
101 cm Hvítá við Iðu Gunnar Pétursson 20. september 20.9.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert