Ísland er veiðiparadís

Robert Nowak með nýgenginn lax sem hann veiddi í Urriðafossi …
Robert Nowak með nýgenginn lax sem hann veiddi í Urriðafossi í Þjórsá. Ljósmynd/Aðsend

Veiðimaður vikunnar er Robert Nowak. Pólskur að uppruna en með íslenskt ríkisfang í dag og talar mjög góða íslensku. Hann starfar meðal annars sem leiðsögumaður við lax- og silungsveiðar ásamt því að reka sitt eigið fyrirtæki.

„Ég kom fyrst til Íslands í febrúar árið 2006. Konan mín sem er pólsk fór til Íslands til að hitta systur sína hér og vinna í stuttan tíma. Ég var að vinna í Austurríki. Ég sagði við hana að þetta gengi ekki. Við myndum aldrei hittast. Ég sagði henni að ég kæmi líka til Íslands og hér höfum við búið síðan.“

Robert byrjaði strax að veiða þegar hann kom til Íslands. „Ég vissi ekkert um landið. Bara ekki neitt. Fyrst fór ég að prófa að veiða í sjónum. Það hentaði mér ekki því ég vil veiða á flugu og helst smáar flugur. Svo rakst ég á mann og hann benti mér á að kaupa Veiðikortið.“

Svona stórir urriðar veiðast ekki í Póllandi

Robert dreif í því og fyrsti túrinn var um vorið þegar hann skellti sér í Þingvallavatn. „Það var æðislegt. Ég man þessa ferð sekúndu fyrir sekúndu. Þetta var svo gaman. Ég hafði hnýtt mínar fyrstu flugur á Íslandi og urriði tók flugu eftir mig. Lítil púpa, svona afbrigði af blóðormi.“ Hann segir að þetta hafi ekki verið sérlega stór urriði á mælikvarða Þingvallavatns en hann var 64 sentimetrar.

Veður stöðvar ekki Robert þegar veiði er annars vegar. Hér …
Veður stöðvar ekki Robert þegar veiði er annars vegar. Hér er hann búinn að landa fallegum urriða í Þingvallavatni. Ljósmynd/Aðsend

Hér segir Robert að það verði að hafa í huga að þegar hann var að veiða í Póllandi hefði 64 sentimetra urriði þótt risastór. „Það þykir gott að fá 40 til 45 sentimetra urriða í Póllandi. Alla veiðimenn dreymir um að veiða 50 sentimetra urriða en það er mjög sjaldgæft.“

Allt annað kerfi í Póllandi

Er mikil veiðimenning í Póllandi?

„Já það er mikill og almennur veiðiáhugi í Póllandi. En þar er allt annað kerfi á hlutunum en á Íslandi. Pólska ríkið á flestalla veiðistaði og setur reglur sem gilda á öllum stöðum.“ Hann segir að landeigendur geti ekki ákveðið að hafa veiða- og sleppa-fyrirkomulag eða að hirða megi svo og svo marga fiska. Það eru bara lög sem gilda á öllum vatnasvæðum. Á nokkrum stöðum er veiða og sleppa eða svokallað „no kill zone“ og þá eru háar sektargreiðslur ef menn brjóta reglurnar. „Það er litið mjög alvarlegum augum ef menn brjóta þessar reglur, og oft enda slík mál með ákæru og fara fyrir dómstóla. Á þessum sérstöku svæðum er takmarkaður fjöldi stanga og bara má veiða á agnhaldslausar flugur og öllu skal sleppt.“

Þegar Robert er spurður hvernig honum finnist Ísland sem veiðiland, stendur ekki á svari. „Þetta er paradís. Veiðiparadís. Ef maður ber þetta saman við önnur lönd í Evrópu þá er víða hægt að veiða alls konar tegundir af fiskum og allt árið. En hér á Íslandi er svo mikið af fiski og svo stórir að það er mjög gaman að veiða hér. Þetta er bara draumur flestra veiðimanna sem ég þekki. Þetta er paradís.“

Flugurnar sem hann hnýtir eru hans eigin hönnun í mörgum …
Flugurnar sem hann hnýtir eru hans eigin hönnun í mörgum tilvikum. Þessar virka vel í sjóbleikju, en hann er ekkert endilega að gefa þeim nafn. Ljósmynd/Robert Nowak

Robert er leiðsögumaður stóran hluta sumars. Hann segir að það hafi eiginlega komið af sjálfu sér. Hann var að rannsaka alls konar svæði þegar hann var sjálfur að átta sig á veiðimöguleikum á Íslandi. Hann deildi miklu af upplýsingum á Facebook og það leiddi til þess að fólk bað hann um að aðstoða sig á ýmsum svæðum. Svo var haft samband við hann frá nokkrum fyrirtækjum sem leigja ár og selja veiðileyfi og í dag er hann í leiðsögn á nokkrum svæðum. „Ég var aldrei að stefna að því að verða leiðsögumaður. Langaði bara að veiða vel og finna nýja staði. Mér finnst mjög spennandi að vera leiðsögumaður og maður hittir alls konar fólk og ólíka veiðimenn.“

Sjóbleikjan í miklu uppáhaldi

Hann á sér uppáhaldsfisk og það er sjóbleikja. Honum finnst bleikjan mjög fallegur fiskur og hann segir ferska sjóbleikju ekki berjast minna en lax. Númer tvö í röðinni þegar kemur að uppáhaldsfiskum er laxinn.

En í algeru uppáhaldi er sjóbleikjan. „Kannski er það vegna þess að bleikja er ekki til í Póllandi og ég veiddi mína fyrstu bleikju hér á Íslandi. Ég elskaði bleikjuna strax. Bæði er hún svo bragðgóð og svo er þetta svo fallegur fiskur.“

Sjóbleikjuveiði úr Hraunsfirði. Sjóbleikja er eftirlætisfiskur Roberts og hann vill …
Sjóbleikjuveiði úr Hraunsfirði. Sjóbleikja er eftirlætisfiskur Roberts og hann vill helst veiða hana í sjó. Ljósmynd/Robert Nowak

Honum finnst skemmtilegast að veiða sjóbleikjuna í sjó með smáum flugum á einhendu. Flugur númer tólf og smærri. Jafnvel fjórtán og sextán. „Íslendingar veiða ekki bleikju í sjó en hún er langkröftugust í sjónum. Ég veiði mikið í kringum Akranes og þá sérstaklega á þessum árstíma. Það er stutt að keyra upp á Akranes og ég fer alltaf þegar ég get.“

Robert segir ekki nóg fyrir sig að kaupa nokkur veiðileyfi yfir sumarið og fara stundum að veiða. „Ég veiði mjög mikið og fer alltaf þegar ég get.“

„Mitt líf snýst um veiði“

Er konan sátt við það?

„Nei. Hún er alltaf brjáluð yfir þessu. Ég skil það. Níutíu og níu prósent af mínum frítíma fer í veiði á sumrin eða hnýta flugur á veturna. Öll símtöl sem ég fæ snúast um veiði og mitt líf bara snýst um veiði allan tímann.“ Hann hlær góðlátlega.

Hann hannar sínar eigin flugur fyrir sjóbleikjuna og blandar þá saman breskum uppskriftum að flugum og uppskriftum frá Evrópu. Hann segist búinn að finna rétt blönduna þannig að flugurnar séu ekki of efnismiklar. Mest notast hann við brúnan lit með rauðu ívafi.

Hvað ertu að fá margar bleikjur á góðum degi þegar þú ferð í sjóinn?

„Það er misjafnt. Stundum gengur lítið og þá er maður að fá kannski fimm en suma daga allt upp í tuttugu bleikjur. Stundum fæ ég sjóbirting en ég er ekki að leita að honum. Núna er besti tíminn og bleikjan kemur alveg í harða land. Maður þarf bara að kasta mjög stutt og strippa mjög hratt og þá meina ég mjög hratt. Ef það er gott veður og logn þá sér maður fiskinn út um allt og getur kastað á hann. Þetta er frábær veiði. Besti tíminn er nákvæmlega núna.“

Margir veiðimenn þekkja eflaust Nowak-flugur enda er Robert mikill hnýtari og birtir oft myndir af flugum sem hann hefur hannað. Fyrir fluguáhugamenn er sniðugt að vingast við hann á Facebook og fylgjast með því sem hann er að gera og greinir frá þar.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Vatnsdalsá Erlendur veiðimaður 29. september 29.9.
101 cm Eystri-Rangá Grzegorz Loszewski 27. september 27.9.
105 cm Hvítá við Iðu Katrín Tanja Davíðsdóttir 24. september 24.9.
101 cm Víðidalsá Jón Eðvald Halldórsson 22. september 22.9.
107 cm Grímsá Jón Jónsson 22. september 22.9.
101 cm Miðfjarðará Agnar Sigurjónsson 22. september 22.9.
101 cm Hvítá við Iðu Gunnar Pétursson 20. september 20.9.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert