Enn von þrátt fyrir harðlífi

Erlendur veiðimaður með fallegan hæng úr Krókhyl. Þessi mældist 94 …
Erlendur veiðimaður með fallegan hæng úr Krókhyl. Þessi mældist 94 sentímetrar. Ljósmynd/Aðsend

Fram til þessa hefur laxveiðin í Húnavatnssýslum verið hálfgert harðlífi. Þó fengu menn viðunandi daga í gær og fyrradag. Laxá á Ásum er komin yfir 300 laxa og í gær veiddust átján og veiðimenn misstu annað eins. Sturla Birgisson staðarhaldari segir að ganga hafi komið í gær. „Við byrjuðum í Dulsum og þar var ekkert að gerast. Svo fundum við gönguna frá Ullarfossi upp í Krókhyl,“ sagði Sturla í samtali við Sporðaköst.

Það er orðin hálfgerð klisja að tala um kalt og mikið vatn, en það er nú engu að síður staðreynd í Húnavatnssýslunum. Sturla segir að í gær hafi hann merkt breytingu á hitastigi árinnar og um leið var eins og ganga kæmi í ána og takan varð betri. „Við vorum að fá þetta mest á smáar flugur 16 til 18,“ sagði Sturla.

Víðidalsá var komin í 220 laxa í gærmorgun. Jóhann Hafnfjörð sagði að veiðimenn hefðu landað tuttugu löxum í fyrradag og á hverjum degi væri að veiðast lúsugur smálax. „Þetta er hins vegar erfitt og aðstæður hafa verið mjög erfiðar í allt sumar.“

Úr Vatnsdalnum er svipaða sögu að segja. Áin er að detta í 200 laxa og Björn K. Rúnarsson leiðsögumaður við ána segir að þetta sé erfitt og viðurkennir að þetta sé hálfgert harðlífi. „Við erum svo sem enn að glíma við kalt og mikið vatn. Ef þetta sumar kemur einhvern tíma þá vonandi hressist þetta. Við erum allavega ennþá bjartsýnir að geti ræst úr þessu,“ sagði Björn í samtali við Sporðaköst.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Vatnsdalsá Erlendur veiðimaður 29. september 29.9.
101 cm Eystri-Rangá Grzegorz Loszewski 27. september 27.9.
105 cm Hvítá við Iðu Katrín Tanja Davíðsdóttir 24. september 24.9.
101 cm Víðidalsá Jón Eðvald Halldórsson 22. september 22.9.
107 cm Grímsá Jón Jónsson 22. september 22.9.
101 cm Miðfjarðará Agnar Sigurjónsson 22. september 22.9.
101 cm Hvítá við Iðu Gunnar Pétursson 20. september 20.9.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert