Besta veiðin í Urriðafossi og Miðfirði

Stórlax úr Urriðafossi í Þjórsá fyrr í sumar.
Stórlax úr Urriðafossi í Þjórsá fyrr í sumar. IO


Nú er að skýrast heildarmyndin í laxveiðinni. Norðurlandið kom einstaklega illa út í veiði þetta sumarið og þá sérstaklega Húnaþing. Laxá á Ásum, Víðidalsá og Vatnsdalsá eru með mun minni veiði en í fyrra og sérstaklega þær tvær síðastnefndu.

Laxá í Aðaldal olli vonbrigðum og var veiðin einungis 608 laxar og er það annað lélegasta sumar í Laxá frá árinu 1975, eða eins langt aftur og tölur angling.is ná en það er vefur Landssambands veiðifélaga sem heldur utan um tölfræði í laxveiðiám. Árið 2012 var það lélegasta sem veiðimenn í Laxá hafa upplifað en þá veiddust aðeins 428 laxar allt sumarið á sautján stangir. Laxá er þó í fyrsta sæti þegar kemur að fiskum yfir 100 sentimetrum og er hvergi á landinu að finna annað eins magn af metfiskum í einni á. Sautján stangir eru í Laxá og er hlutfallið á stöng tæpir 36 laxar, sem verður að teljast virkilega róleg veiði.

Þegar horft er til Suðurlandsins er annað uppi á teningnum. Þar var veiðin góð mjög víða, eins og í Þjórsá, Elliðaánum og Affalli svo einhverjar séu nefndar.

Veiðimaður með stórlax úr Miðfjarðará.
Veiðimaður með stórlax úr Miðfjarðará. Rafn Valur Alfreðsson

Mesta veiði miðað við stangafjölda

Ef skoðaður er topp tíu listinn yfir þær ár sem skilað hafa flestum löxum, en deilt er í laxafjölda með fjölda stanga á umræddu vatnasvæði breytist listinn mikið. Þá sker Urriðafoss sig úr með mesta veiði á hverja stöng, eða 325 laxa á stöng. Þar á eftir koma Miðfjarðará (260 laxar á stöng) og Haffjarðará (257 laxar á stöng) en þar eru komnar lokatölur, ólíkt því sem er í Miðfirði og Urriðafossi. Elliðaárnar eru í fjórða sæti, eins og staðan er núna (240 laxar á stöng) en þær komast ekki inn á topp tíu listann yfir heildarveiði. Selá í Vopnafirði er í sjötta sæti (219 laxar á stöng) en það byggir á tölum frá 12. september. Eystri-Rangá er í sjöunda sæti (207 laxar á stöng) en þar er enn nokkuð eftir af veiðitímanum. Affallið og Ytri-Rangá með Hólsá koma næstar (199 laxar á stöng).

Hér eru svo nokkrar til viðbótar. En rétt er að hafa í huga að þessar tölur geta breyst þegar lokatölur liggja fyrir.

Þverá/Kjarrá        175 laxar á stöng

Laxá í Dölum        161 laxar á stöng

Langá                    126 laxar á stöng

Grímsá                  123 laxar á stöng

Norðurá                112 laxar á stöng

Laxá í Kjós            112 laxar á stöng

Hér er hægt að fara inn á töfluna á angling.is þar sem sjá má nýjustu veiðitölur:

http://angling.is/is/veiditolur/

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Vatnsdalsá Erlendur veiðimaður 29. september 29.9.
101 cm Eystri-Rangá Grzegorz Loszewski 27. september 27.9.
105 cm Hvítá við Iðu Katrín Tanja Davíðsdóttir 24. september 24.9.
101 cm Víðidalsá Jón Eðvald Halldórsson 22. september 22.9.
107 cm Grímsá Jón Jónsson 22. september 22.9.
101 cm Miðfjarðará Agnar Sigurjónsson 22. september 22.9.
101 cm Hvítá við Iðu Gunnar Pétursson 20. september 20.9.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert