Góð opnun á urriðamiðum

Ásgeir Einarsson með stærsta urriða dagsins á opnunardegi á ION-svæðinu. …
Ásgeir Einarsson með stærsta urriða dagsins á opnunardegi á ION-svæðinu. Þessi mældist 86 sentimetrar. Ljósmynd/Aðsend

Urriðaveiðin í Þingvallavatni byrjaði af krafti á opnunardeginum í gær. ION-svæðið er rómað fyrir stóra urriða eða afkomendur ísaldarurriðans. Fiskur gaf sig strax í morgunsárið og þrátt fyrir rok og rigningu voru menn duglegir. Einn þeirra sem hóf veiðar í gær er Ingvar Svendsen veitingamaður. „Já það var rok og úrkoma, en veiðin var hreint út sagt frábær, alveg frá byrjun,“ sagði Ingvar í samtali við Sporðaköst. „Það var rosalegt líf á svæðinu og við sáum mikið af fiski. Bæði stutt frá landi og utar.“

Ásgeir Einarsson landaði 86 sentimetra fiski í Þorsteinsvík og þó nokkrir mældust yfir 70 sentimetrar og einnig var töluvert um smærri fisk. „Við höfum verið að taka þetta mest á Black Ghost og aðrar straumflugur,“ sagði Ingvar. Hann fékk síðasta fiskinn á Black Ghost-afbrigði með appelsínugulu skeggi.

Ingvar Svendsen með fallegan urriða. Flestir fiskarnir tóku Black Ghost, …
Ingvar Svendsen með fallegan urriða. Flestir fiskarnir tóku Black Ghost, bæði hefðbundna straumflugu og ýmis afbrigði. Ljósmynd/Aðsend

Dregið upp í topplykkju

Alls var tugum urriða landað á fjórar stangir á svæðinu. ION-svæðið er tvö í raun tvö veiðisvæði. Það er annars vegar Þorsteinsvíkin og þar eru tvær stangir og svo er það Ölfusvatnsárós og þar eru aðrar tvær. Á báðum svæðum var góð veiði og menn voru líka að missa töluvert af fiski.

„Það sem er svo magnað við þetta er að maður þarf að strippa nánast upp í topplykkju. Fiskurinn er stundum að taka alveg við lappirnar á manni. Svo eru þetta svo sterkir fiskar að það er alveg magnað. Ég hélt oft að ég væri búinn að setja í eitthvert tröll því að takan var svo svakaleg. Þetta eru svo sterkir fiskar og um fimm punda svona urriði er eins og að takast á við tíu punda lax,“ sagði Ingvar að lokum.

Einn af Villimönnunum með fallegt eintak sem veiddist í Villingavatnsárósnum. …
Einn af Villimönnunum með fallegt eintak sem veiddist í Villingavatnsárósnum. Þeir félagar voru líka í mjög góðri veiði. Ljósmynd/Aðsend

Villimenn við Villingavatn

Nokkrir af liðsmönnum hópsins sem kalla sig Villimenn voru við veiðar í Villingavatnsárósnum í Þingvallavatni. Þeir lentu sömuleiðis í hörkuveiði og settu í mikið af fiski. Elías Pétur Viðfjörð Þórarinsson birti mynd af sér með gríðarfallegan ísaldarurriða. Þeir félagar voru að taka þessa fiska mestmegnis á straumflugur, Black Ghost en líka Dodda, Rektor og fleiri flugur. Það er óhætt að segja að urriðaveiðin í Þingvallavatni hafi farið af stað með moki.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Vatnsdalsá Erlendur veiðimaður 29. september 29.9.
101 cm Eystri-Rangá Grzegorz Loszewski 27. september 27.9.
105 cm Hvítá við Iðu Katrín Tanja Davíðsdóttir 24. september 24.9.
101 cm Víðidalsá Jón Eðvald Halldórsson 22. september 22.9.
107 cm Grímsá Jón Jónsson 22. september 22.9.
101 cm Miðfjarðará Agnar Sigurjónsson 22. september 22.9.
101 cm Hvítá við Iðu Gunnar Pétursson 20. september 20.9.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert