Mikið af birtingi í Heiðarvatni

Tæplega 80 sentímetra sjóbirtingur úr Heiðarvatni. Aron Sigurþórsson fékk þennan …
Tæplega 80 sentímetra sjóbirtingur úr Heiðarvatni. Aron Sigurþórsson fékk þennan á Toby. Vel haldinn og flottur fiskur. Ljósmynd/ES

Veiði er hafin í Heiðarvatni í nágrenni við Vík í Mýrdal. Skemmst er frá því að segja að mjög vel veiddist í opnuninni og var fjölmörgum rígvænum sjóbirtingum landað ásamt því sem nokkuð fékkst af staðbundnum urriða. Bleikjan er enn lítið farin að láta sjá sig á grunnslóðinni en miðað við hitastig breytist það fljótlega.

Veiðar hófust snemma dags í hægu veðri og rigningarskúrum. Fljótlega veiddust fyrstu urriðarnir og tóku þeir í bland flugu og Olive Toby spún. Snemma um morguninn setti Aron Sigurþórsson í fyrsta sjóbirtinginn. Það sást strax að þetta var vænn fiskur og kröftugur. Hann tók Olive Toby langt úti í vatninu. Eftir miklar rokur og sporðadans náði veiðimaðurinn yfirhöndinni og fiskurinn mældist 78,5 sentímetrar. Annar slíkur kom í kjölfarið og mældist sléttir 78 sentímetrar.

Guðlaugur Helgason með birting af sama stað. Guðlaugar hefur veitt …
Guðlaugur Helgason með birting af sama stað. Guðlaugar hefur veitt í Heiðarvatni áratugum saman og man ekki eftir svo góðri opnun. Ljósmynd/ES

Fyrir hádegi, eða á fyrri vaktinni var 23 sjóbirtingum og 8 urriðum landað. Einungis ein bleikja tók flugu veiðimanna og var það hefðbundin Pheasant Tail sem hún féll fyrir.

Aðstæður við vatnið eru með hreinum ólíkindum miðað við síðustu ár og ljóst að vorið er fyrr á ferðinni í Heiðardalnum, eins og raunar um allt land.

Guðlaugur Helgason sem veitt hefur í vatninu áratugum saman man ekki eftir svona öflugri opnun og sérstaklega var heillaður fjölda, stærð og ásigkomulagi sjóbirtingsins. „Ég man bara ekki eftir svona flottri opnun. Það hefði verið gaman ef flugan hefði gefið meira en við þurftum að kasta svo langt til að ná á hann. Þar var Olive Toby að virka frábærlega. Hann hefur ekki verið til í nokkur ár, en er loksins kominn aftur og það var eins gott,“ hló Gulli.

Aron landar kröftugum urriða, sem tók spúninn. Það var mikið …
Aron landar kröftugum urriða, sem tók spúninn. Það var mikið um urriða og sjóbirting en bleikjan hélt sig til hlés. Ljósmynd/ES

Það er ljóst að spennandi tímar eru framundan í Heiðarvatni og ekki síst í ljósi þess að bleikjan fer á stjá fljótlega og þá eykst bara fjörið.

Víða gott í silungnum

Silungsveiðimenn eru víða að upplifa góða veiði. Þannig var mikið líf og veiði þegar Hlíðarvatn í Selvogi opnaði í gær. Sömu sögu er að segja af hinni rómuðu silungsveiðiá Köldukvísl, sem fellur í Sporðöldulón eftir för sína um Sprengisand. Þar eru bleikjan farin að gefa sig og veiðimenn sem nú eru við veiðar voru að veiða vel á straumflugur. Það er gaman að segja frá því að næsti þáttur sjónvarpsþátta Sporðakosta fjallar um Köldukvísl og var tekinn upp síðasta sumar. Þátturinn er á dagskrá næstkomandi þriðjudag klukkan 19:50.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Vatnsdalsá Erlendur veiðimaður 29. september 29.9.
101 cm Eystri-Rangá Grzegorz Loszewski 27. september 27.9.
105 cm Hvítá við Iðu Katrín Tanja Davíðsdóttir 24. september 24.9.
101 cm Víðidalsá Jón Eðvald Halldórsson 22. september 22.9.
107 cm Grímsá Jón Jónsson 22. september 22.9.
101 cm Miðfjarðará Agnar Sigurjónsson 22. september 22.9.
101 cm Hvítá við Iðu Gunnar Pétursson 20. september 20.9.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert