Risalax veiddur í Mörrum í Svíþjóð

Aik Boyman með risalaxinn úr Mörrum. Hann mældist 118 sentímetrar …
Aik Boyman með risalaxinn úr Mörrum. Hann mældist 118 sentímetrar og vigtaði 19,3 kíló. Óvenju gott ár er í Mörrum og vonandi veit það á gott með sumarið hér á landi. Ljósmynd/Stefan Enevoldsen

Einn stærsti lax sem veiðst hefur, á þessari öld, í hinni þekktu laxveiðiá Mörrum í Svíþjóð, kom á land í gær. Það var veiðimaðurinn Aik Boyman sem setti í risalax á Bananafluguna. Sem er túpa gul og svört. Um var að ræða hæng sem mældist hvorki meira né minna en 118 sentímetrar og vó 19,3 kíló.

Erik Hellquist var sá sem háfaði fiskinn fyrir Boyman. „Þetta var svakalegur fiskur og ég vildi ekki segja Boyman hvað hann var stór á meðan ég nálgaðist hann með háfnum því ég var svo hræddur um að stressa hann upp,“ sagði Erik í samtali við Sporðaköst. Viðureignin tók ekki nema þrjátíu mínútur, sem er vel að verki staðið þegar um svo stóran fiski er að ræða. „Hann var með tvíhendu og tók hraustlega á honum. Við höfum ekki séð svona stóran fisk í mörg ár. Ég man eftir einum sem var átján kíló fyrir nokkuð mörgum árum. En þessi var svakalegur.“ Erik sagði að þessum laxi hefði ekki verið sleppt. „Hann tók laxinn og er að spá í að stoppa hann upp, en það er mjög dýrt.

Það er bara brjáluð veiði þetta árið. Bara ótrúlegt og hefur ekki verið svona gott í mörg ár. Hjá okkur er þetta allt náttúrulegur lax og við sleppum engum seiðum. Áin sér um sig sjálf og hefur gert það frá 1993 þegar við hættum sleppingum.“

Breitt sænskt bros. Þessi fiskur tók Bananafluguna og viðureignin stóð …
Breitt sænskt bros. Þessi fiskur tók Bananafluguna og viðureignin stóð í þrjátíu mínútur segir sjónarvottur. Ljósmynd/Stefan Enevoldsen

Dagurinn á 9 þúsund krónur

Og hvað kostar svo dagurinn hjá ykkur?

„Veiðin byrjar í mars og stendur út september. Núna er tíminn mikið af fiski að ganga og dagurinn hér núna er á sjö hundruð sænskar. Auðvitað hleypur það upp og niður yfir tímabilið en dagurinn í dag kostar 700 sænskar.“ Erik benti á að einnig er hægt að kaupa leyfi fyrir tímabil eða heilt ár. En það athyglisverða í þessu samhengi er að 700 sænskar krónur leggja sig á tæplega níu þúsund íslenskar. Menn komast ekki í laxveiði á Íslandi fyrir þann pening.

Á árunum 1990 til 2000 veiddust níu laxar í Mörrum sem mældust um og yfir 50 pund. Nú gleðjast heimamenn að sjá svo stóran fisk. Þannig greindi Fiskeshopen sem stendur við ána frá þessum stóra laxi á facebook og sagði af þessu tilefni; „Mörrum is back.“

Stærsti lax veiddur á flugu í Mörrum veiddist 1992, 31. maí og vó hann 26,72 kíló.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Vatnsdalsá Erlendur veiðimaður 29. september 29.9.
101 cm Eystri-Rangá Grzegorz Loszewski 27. september 27.9.
105 cm Hvítá við Iðu Katrín Tanja Davíðsdóttir 24. september 24.9.
101 cm Víðidalsá Jón Eðvald Halldórsson 22. september 22.9.
107 cm Grímsá Jón Jónsson 22. september 22.9.
101 cm Miðfjarðará Agnar Sigurjónsson 22. september 22.9.
101 cm Hvítá við Iðu Gunnar Pétursson 20. september 20.9.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert