Fiskleysi og vatnsleysi í Borgarfirði

Kjarrá í gær. Eins og sjá má er áin vart …
Kjarrá í gær. Eins og sjá má er áin vart svipur hjá sjón og það er engin rignin í spákortunum. Sigurjón Ragnar

Fordæmalaust ástand ríkir nú við þær laxveiðiár sem þegar hafa opnað í Borgarfirði. Ekki hefur veiðst lax í Norðurá, frá því að opnunarvaktin skilaði sjö löxum. Einungis einn lax veiddist í Kjarrá á opnunardeginum í gær og lítil veiði er í Þverá. Kvíðvænlegustu tíðindin eru þó þau að ósasvæðin í Borgarfirði Straumarnir og Brennan eru heldur ekki að gefa fisk. Eitthvað er af fiski í Brennunni, þar sem Þverá líkur sinni för en lítið sem ekkert hefur orðið vart við fisk í Straumunum þar sem Norðurárfiskurinn fer í gegn. Tíu vaktir hafa nú verið fisklausar í Norðurá og hafa þær verið mannaðar að stórum hluta af hörkuveiðimönnum.

Ástæður þessa eru margar en óvissan vex dag frá degi. Einar Sigfússon, rekstraraðili Norðurár staðfesti í morgun að ástandið væri alverlegt og kvívænlegt. „Hér hefur ekki veiðst fiskur frá því fjórða júní,“ sagði Einar í samtali við Sporðaköst.

Hann bendir á nokkrar ástæður sem liggja í augum uppi. Vatnsleysið er orðið þannig að menn hafa ekki séð Norðurá svo vatnslitla á þessum árstíma, áður. Þá er ægibjart og um leið kalt. Það gerir það að verkum að fiskurinn er varari um sig og jafnvel gengur ekki í þetta litla og kalda vatn. En á sama tíma ætti þá að vera fjör á ósasvæðunum. Því er ekki að heilsa.

„Menn eru náttúrulega skúffaðir yfir ástandinu í veiðunum, því það veiðist ekki neitt. Það er alveg sama hvar menn ber niður. Ástandið er allt á einn veg á Vesturlandinu. Ég er samt ekki þannig gerður að ég sé farinn að örvænta. Ég hengi hatt minn nú á nafna minn Sveinbjörnsson veðurfræðing sem spáði votviðrasömu sumri. Ég vil nú heldur fá rigninguna um mitt sumar og seinnipart.“

Fyrsta vaktin í Norðurá gaf sjö laxa. Það eru einu …
Fyrsta vaktin í Norðurá gaf sjö laxa. Það eru einu laxarnir úr ánni. Tíu vaktir hafa verið laxlausar. ÞGÞ

„Hamfaraástand“

Ingólfur Ásgeirsson einn af leigutökum Þverár/Kjarrár hefur í samtali við Sporðaköst lýst ástandinu sem „hamfaraástandi.“ Og er þá einkum að vísa til vatnsstöðu. Því sú óvenjulega staða er nú uppi að vorleysingar komu af fullum krafti í apríl og vatnsforði sem við venjulegar aðstæður hefði dugað á vormánuðum var upp urinn í maí.

„Það er nýtt tungl þann sautjánda, mánudaginn eftir viku. Nýju tungli fylgir oft breytt veðrátta. En maður veit svo sem aldrei með þetta veður. Meðan að dagurinn er svona bjartur og nóttin líka þá er fiskurinn bara hræddur og heldur sig til hlés. Ég óttast ekki að fiskurinn mæti ekki. Hann er mættur í Þjórsá og í Blöndu.“

Engin rigning í kortunum

Þegar skoðuð er veðurspá fyrir næstu daga þá er ekki dropi í kortunum. Ljóst er þegar skoðuð er spá Veðurstofu Íslands og yr.no þá er ekki von á rigningu í bráð.

„Það er alveg ljóst að það er eitthvað sem hamlar göngu en ég hef enga ástæðu til að ætla að hafi orðið einhverjar hamfarir í hafinu, þegar maður horfir til Þjórsár þar sem vatnsleysi er ekki að hrjá menn og fiska. Ég held að þessi fiskur fari meira og minna á sömu slóðina.“

Einar viðurkennir að þetta sé mjög sérkennileg staða og „kvívænleg staða.“

Á næstu dögum opna fleiri laxveiðiár og þá mun myndin skýrast frekar. Upp úr miðjum mánuði fara ár á Norð-Vesturlandi að opna en þar er staðan svipuð og vatnsleysi eins og menn hafa ekki séð áður á þessum tíma.

UPPFÆRT kl: 13:46

Eftir að fréttin birtist hafði Ingólfur Ásgeirsson samband og vildi leiðrétta að ágætis veiði hefði verið í Brennunni undanfarna daga og væri það ótvírætt merki um að laxinn væri að ganga í Hvítána á leið sinni upp í Þverá og Kjarrá. Það eru vissulega góðar fréttir og ómögulegt er að meta hversu mikið af laxi er að bíða af sér þetta ástand.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Vatnsdalsá Erlendur veiðimaður 29. september 29.9.
101 cm Eystri-Rangá Grzegorz Loszewski 27. september 27.9.
105 cm Hvítá við Iðu Katrín Tanja Davíðsdóttir 24. september 24.9.
101 cm Víðidalsá Jón Eðvald Halldórsson 22. september 22.9.
107 cm Grímsá Jón Jónsson 22. september 22.9.
101 cm Miðfjarðará Agnar Sigurjónsson 22. september 22.9.
101 cm Hvítá við Iðu Gunnar Pétursson 20. september 20.9.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert