„Moby Dick“ í Teljarastreng

Guðrún Gerður með stórlaxinn sem hún veiddi í morgun. Níutíu …
Guðrún Gerður með stórlaxinn sem hún veiddi í morgun. Níutíu sentímetrar, merktur og lúsugur. Ljósmynd/Aðsend

Þrjátíu laxar hafa veiðst í Elliðaánum og sérstaka athygli vekur að helmingur þeirra er yfir 70 sentímetrar. Svo hátt hlutfall stórlaxa í Elliðaánum er nýlunda. Ásgeir Heiðar sem þekkir árnar manna best segist ekki muna eftir svona miklu magni af stórlaxi og það á þessum tíma. „Ég hef aldrei séð þetta áður með þessum hætti,“ sagði Ásgeir Heiðar í samtali við Sporðaköst. Níutíu sentímetra lax veiddist í Seiðkatli í morgun og var það Guðrún Gerður sem veiddi hann á maðk. Fiskurinn var lúsugur og merktur. „Það verður mjög spennandi að sjá hvaða upplýsingar við fáum þegar lesið verður í merkið,“ sagði Ásgeir Heiðar. Og hann segir að þeir séu fleiri á sveimi í Elliðaánum. „Það er einn mjög stór í Teljarastreng. Hann er orðinn eins og Moby Dick sem var með allskonar skutla í sér. Ég setti í þennan fisk á flugu og hann sleit hjá mér. Kjartan Lorange fór næstur og setti í hann á maðk. Hann sleit 40 punda girni hjá honum.“ Þá er vitað um mjög stóran fisk í Árbæjarhyl og stórlax hafði betur í viðureign við veiðimann á Hrauninu í gær.

Rögnvaldur Guðmundsson með einn af fyrstu löxunum úr Laxá í …
Rögnvaldur Guðmundsson með einn af fyrstu löxunum úr Laxá í Dölum. Hann tók flugu sem heitir Ólga númer 14. Ljósmynd/ES

Eftir magnaða opnun hefur lítið verið að ganga af fiski í Elliðaárnar, þar til í dag. Smálaxaganga kom inn í morgun, að sögn Ásgeirs Heiðars og hann hefur tekið eftir því að einn og einn stórlax hefur verið að læðast inn á hverju flóði. Vatnsstaða Elliðaánna er mjög góð og verður spennandi að fylgjast með framhaldinu.

Fyrstu laxarnir úr Dölunum

Flest allar laxveiðiár hafa nú verið opnaðar. Fyrstu laxarnir veiddust í Laxá í Dölum í gær og var nokkuð af fiski að koma inn á flóðinu. Laxá er afar vatnslítil en þar eins og í öðrum vatnslitlum ám eru menn að sjá laxinn ganga við ótrúlegar aðstæður. Hálfir upp úr berjast þeir yfir grynningar og leita næsta dýpis. Þessi ótrúlegi kraftur laxins hefur sést víða að undanförnu, bæði í Laxá í Kjós og í Hrútafjarðará en báðar eru þjakaðar af vatnsleysi.

Fyrsta laxinum hefur verið landað í Hítará en þar misstu menn fyrstu tíu laxana sem sett var í. Nokkuð er af laxi í ánni en hann tekur illa. Þar eins og víða annars staðar bíða menn rigningar.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Vatnsdalsá Erlendur veiðimaður 29. september 29.9.
101 cm Eystri-Rangá Grzegorz Loszewski 27. september 27.9.
105 cm Hvítá við Iðu Katrín Tanja Davíðsdóttir 24. september 24.9.
101 cm Víðidalsá Jón Eðvald Halldórsson 22. september 22.9.
107 cm Grímsá Jón Jónsson 22. september 22.9.
101 cm Miðfjarðará Agnar Sigurjónsson 22. september 22.9.
101 cm Hvítá við Iðu Gunnar Pétursson 20. september 20.9.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert